mánudagur, 30. desember 2013

Að pakka niður ...

Þegar fimm manna fjölskylda er á leið til Afríku þarf að taka með mikinn farangur. Fötin taka svo sem ekki mikið pláss því í Burkina Faso er aðeins hlýrra en á Íslandi og því mikið um léttan fatnað. En það er óneitanlega góð tilfinning að þurfa ekki að pakka niður, úlpu, ullarfötum, regngalla, stígvélum eins og við myndum eflaust gera ef við værum að fara í sumarbústað eða útilegu á Íslandi. En varðandi það hvað leynist í töskunum þá er til dæmis búið er að pakka niður nokkrum Spagetti Bolognese barnamatskrukkum fyrir Pétur Berg og auðvitað moskítóvörnum og sólarvörn......

Í dag fengum við okkur göngutúr í SNJÓNUM í apótekið og keyptum alcogel sem er sótthreinsandi gel til að bera á hendurnar, Acidophilus tuggutöflur fyrir drengina, malaríutöflurnar Lariam og B sterkar. B sterkar eiga víst að vera allra meina bót er það ekki?

Já og strax eftir áramót verða bleyjurnar keyptar ... hvað ætli Pétur Berg muni nota margar bleyjur á 6. vikna ferðalagi .... hmmmm


laugardagur, 28. desember 2013

Undirbúningur að klárast - visa, sprautur og töflur

Í dag eru 9 dagar þangað til við höldum af stað ferðina okkar. Vegabréfsáritunin kom um fyrir nokkru og við erum loksins komin með allar sprautur sem við þurfum. 

Það hefur hinsvegar ekki alveg gengið þrautarlaust fyrir sig. Um tíma leit út fyrir að við myndum ekki fá gulu sprautu fyrir yngsta barnið. Það var einfaldlega ekki til þannig bóluefni í landinu og ekki búist við sendingu fyrr en eftir að við áttum að vera farin út. Gulu bólusetning er skilyrði fyrir því að komast inn í Burkina Faso. Þetta var mjög bagalegt, á tímabili leit út fyrir að þessi eina sprauta gæti komið í veg fyrir að við kæmumst í ferðalagið. Að lokum tókst þó að finna einhverja skammta á landinu og Pétur Berg fékk einn. 

Næsta vandamál fólst í malaríutöflum þ.e. skorti á þeim. Þegar við höfum ferðast um heiminn hingað til hefur verið lítið mál að nálgast þær. Eitthvað virðist lyfjamálum hafa farið aftur á landinu og það reyndist þrautin þyngri að finna nægilega margar töflur, við þurftum að nálgast töflur hér og þar. Eitthvað var til í apótekum en einnig fengum við töflur frá fólki sem hefur nýlega verið úti. Eftir talsverða fyrirhöfn höfum við náð að safna nægilega mörgum töflum fyrir okkar 6 vikna dvöl í Burkina Fasa. Þetta er mjög bagalegt ástand fyrir fólk sem er mikið á ferðinni og verður að laga.

Í þessum töluðu orðum er Gunna að byrja að pakka fötum, nú eru týnd til öll sumarföt sem við eigum og farið yfir hvað hentar best. Ég skjal játa að það er mjög notalegt að finna til stuttbuxur þegar úti er 5 stiga frost.