föstudagur, 31. janúar 2014

Frí í Afríkunni

Í gær fórum við með tengdaforeldrunum í 3. Nátta frí í Banfora sem er suður af Bobo. Við erum á æðislegu hóteli með fallegum garði og sundlaug. Herbergin eru loftkæld sem er mjög notalegt en um leið skrítið að þurfa að passa að börnunum verði ekki kalt á nóttunni :-)
Í morgun fengum við okkur eggjaköku og Croisant á hótelinu í morgunmat. Þetta var líklega kaldasti morgun til þessa í ferðinni þar sem það var smá vindur. Það hlýnaði þó fljótlega þegar leið á daginn. Við fórum á markaðinn í morgun og náðum að versla smá Burkinavörur:-). Í hádeginu fórum við svo á Mc Donald sem er svona "hermikráku" veitingastaður sem var búið að mæla með á Tripadvisor. Fínasti matur þar ... haha!
Yfir heitasta tímann vorum við svo við sundlaugina (og í henni) með sólarvörnina á lofti. Nú sitjum við úti í garði. Drengirnir sofnaðir hér hjá okkur og horfum á The Bible series ... FRÁBÆRIR og vel gerðir þættir.
Nægtí nægt....




miðvikudagur, 29. janúar 2014

Göngutúrinn

Það er svo margt sem mig langar að segja frá. Èg veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Síðan ég bloggaði síðast erum við fjölskyldan búin að sofa upp á svölum/þaki. Það var svo notalegt. Krakkarnir sváfu mjög vel í "svalanum". Hitinn fór niður í 21° við sólarupprás.  Þetta var æðislegt, klárlega eitthvað sem við eigum eftir að gera aftur áður en við höldum heim á leið.
Í gærkvöldi var okkur boðið í mat hjá kristniboðum sem hafa búið hér í Burkina í að ég held 25. Ár. Það var mikið gaman að koma heim til þeirra. Yndisleg hjón sem eiga 5 börn. Fjóra stráka og 1 stelpu. Yngsta stelpan og yngsti strákurinn eru í á heimavistarskóla fyrir börn kristniboða í Þýskalandi. Stelpan er bara að verða 14. ára á þessu ári og sagði Ester (konan sem við heimsóttum) að þetta hefði verið erfitt fyrir þær mæðgur En Guð væri trúfastur:-)
Í dag fórum við fjölskyldan í langan göngutúr alveg inn í fátækrahverfið. Úr því hverfi koms margir nemendur í skólanum. Þar voru leirkofar sem geta verip mjög lélegir og hrunið á rigningartímanum. Við sáum einmitt einn sem hafði hrunið að hluta. Í þessu langa göngutúr varð ég fyrir því óhappi að uppáhalds "sumar" skórnir mínir gáfu sig algjörlega... annar þeirra. Svo það var bara tekin á þetta "African style" og gengið að hluta til á tánum. :-)
Við rákumst á marga líflega einstaklinga á göngunni og heyrðum oft kallað á eftir okkur "tútabú" (hvítingi). Eftir því sem við nálguðumst heimilið aftur mættum við mörgum börnum sem voru á leið heim úr skóla. Það var auðvelt að þekkja "okkar" börn úr ABC skólanum á búningnum sem þau voru í. Mörg börn voru líka að koma úr Islam skólanum eins og sást á því hvað stúlkurnar voru svartklæddar og huldar. Jafnvel svo mikið að einungis sást í augun. Við gengum líka framhjá skólabyggingu sem var svo lítil og ræfilsleg að ég skil eiginlega ekki hvernig kennsla fer þar fram. Allavega miðað við það sem maður hefur heyrt um bekkjarstærðir. Hér á ABC skólanum er algjör lúxus að hafa rúmlega 50 nemendur í bekk. Hvað finnst ykkur um það kollegar okkar í Vallaskóla? :-)
Göngutúrinn endaði svo á smá körfubolta hjá feðgunum sem endaði með því að Hinrik Jarl fékk smá sár :-/ en það var þrifið þrátt fyrir mótmæli þess stutta. :-)
Hér fyrir neðan er mynd af henni Naomi sem er "kokkurinn" í skólanum. Hún er flesta daga með barn á bakinu sem er barnabarnið hennar 18. Mánaða. Dáist að dugnaðunum í henni að elda fyrir 350 börn með barnabarnið á bakinu.
En já myndirnar tala sínu máli....
Over and out í bili:-)









sunnudagur, 26. janúar 2014

Sunnyday

Í dag fórum við á samkomu í kirkju sem við höfum ekki farið í áður í þessari ferð. Þegar við mættum á staðinn voru allir í ŕrólegheitunum, ekkert að stressa sig við það að láta samkomuna byrja á réttum tíma. Forstöðumaðurinn Pastor Mosé sem er frábær náungi hló og sagði "African time" ... þetta minnti okkur æ Indland um árið :-) Aron predikaði þegar rúmir tveir tímar voru liðnir af samkomunni. Ekkert stress hér í landi og góður tími tekinn í allt.... Pínu erfitt fyrir okkur tútabúanna (hvítingjana) en góður lærdómur að vera ekki alltaf að flýta sér.
Ég og tengdamamma vorum að mestu fyrir utan með börnin. Það var gaman að fylgjast með börnunum og mannlífinu þar var t.d ein stúlka örugglega ekki meira en 8. ára sem var með bróðir sinn á bakinu stótan hluta af samkomunni. Hann var svona sirka 9. mánaða myndi ég giska á. Ég fylgdist með henni taka hann af bakinu þegar hann vaknaði, leika við hann og binda hann svo aftur á bakið á sér.  Það var líka einn þreyttur maður á "bíla"stæðinu sem hafði ákveðið að fá sér kríu ofan á hjólinu sínu (eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan). Hann hefur örugglega verið einn af þeim sem hafði komið í brúðkaupið sem var haldið daginn áður og hafði staðið langt fram undir morgun. 
Eftir samkomu vorum við boðin í mat til Pastor Mosé og Christine konu hans. Þau eiga þrjú börn. Það yngsta (stúlka) sem er jafn gömul og Lýdía. Við fengum æðislrga gott spagettí með kjúklingabitum.  Þau búa í stóru húsnæði 120fm sem er miðað við vestrænan standard frekar illa farið. Þau eru þó mjög ánægð með húsið sem þau leigja á 20.000 sefa á mánuði (5.000 ISK). Þau eru yndisleg hjón.
Eftir heimsóknina kíktum við á markaðinn sem við erum búin að bíða eftir að komast á. Það var mjög áhugavert. Keyptum efni í afríkupils á okkur mæðgur og Toy story efni í sængurver fyrir strákana :-)
Nú eru drengirnir löngu sofnaðir og Aron og Lýdía komin upp á þak þar sem þau ætla að sofa á dýnu undir moskítóneti í kvöldsvalanum (27°). Örugglega mjög kósý.
Góða nótt....
Gunna





laugardagur, 25. janúar 2014

ABC skólin í Bobo

Fyrir þremur árum kom ég hingað til Bobo og sá skólann sem byggður hafði verið upp þá. Það kom mér gríðarlega á óvart þegar ég kom hingað aftur núna hversu mikið hafði verið byggt upp. Nemendur eru um 350 og fá þau öll ókeypis menntun í boði Íslendinga.  Lögð er áhersla á að nemendur komi frá fátækustu heimilinum hér á svæðinu sem ekki hefðu efni á að senda börnin í skóla. Úr vöndu er að ráða því mikið er af fátækum heimilum hér.

Fátæktin sem um ræðir er nokkuð sem fæstir Íslendingar geta skilið án þess að sjá hana með eigin augum.  Fólk býr í litlum kofum sem byggðir eru úr múrsteinum sem búnir eru til úr jarðveginum sem var þar sem húsin standa. Þessi tegund húsa er mjög léleg vegna þess að steinarnir leystast upp á regntímanum og hrynja að lokum.  Oft búa börnin hjá fjarskyldum ættingjum, kunningjum eða jafnvel ein vegna þess að foreldrarnir hafa þurft að fara annað af ýmsum ástæðum. Þetta fólk hefur ekki aðgang að heilsugæslu og oft er máltíðin í skólanum sú eina sem börnin fá yfir daginn.

Í vor útskrifast fyrstu nemendur skólans og á teikniborðinu er framhaldsskóli til þess að nemendur geti haldið menntun sinni áfram. Það er hinsvegar allt háð fjármagni sem er af skornum skammti.  Hér er einnig komin verkmenntadeild sem er einkum hugsuð fyrir þá nemendur sem hafa átt erfitt með að fóta sig í bóklega náminu. Einnig er komin heilsugæsla á svæðinu fyrir börnin. Nemendur í skólanum eru yfir 50 í hverjum bekk en það er hátíð miðað við ríkisskólana þar sem nemendur eru oft um 200 í bekk. 

Í gær og í dag vorum við að taka myndir af nemendum sem eru að ég held hugsaðar til þess að senda stuðningsaðilum. Ég tók myndir, Gunna og Lýdía skráðu þau niður og mamma hjálpaði þeim að finna sig til. Á meðan á myndatökunni stóð fengum við að heyra af aðstæðum ýmisa nemenda og voru það oftar en ekki átakanlegar sögur. Það var gaman þegar allt í einu byrtist stúlkan sem við fjölskyldan höfum styrkt síðustu ár sem og börn sem ýmsir vinir okkar og fjölskylda styrkja. Þetta eru mjög flottir einstaklingar og ótrúleg forréttindi að fá að geta tekið þátt í að skapa þessum krökkum framtíð sem þau 
annars ættu ekki kost á. 

Í lok myndatökunnar komu nokkrir af eldri krökkunum og báðu um að tekin yrði mynd af þeim og Lýdíu Líf. Læt hana fylgja með hér að neðan ásamt nokkrum öðrum. 








miðvikudagur, 22. janúar 2014

Malaríuröfludagur

Í dag var malaríuröfludagur. Hver og einn fjölskyldumeðlimur fær ákveðin skammt af Lariam. Það eru allir voða duglegir að taka sína töflu en sem betur fer er það bara einu sinni í viku. Pétur Berg fær 1/4 úr töflu og hefur reynst best að koma henni nógu langt upp í hann svo hann geti gleypt hana strax. Eins gott að taka þesdi lyf því nokkrar moskítóflugur komu úr felum eftir smá rigningarskúr í fyrradag og leituðu mig uppi eins og sést á mynd hér fyrir neðan.
Aron er enn á ferð með pabba sínum en kemur heim í kvöld. Þeir eru búnir að keyra mikið og heimsækja marga og það verður áhugavert að heyra betur frá þeim þegar þeir koma heim. Strákarnir voru ægilega ánægðir í morgun að leika sér með steina hér úti á lóð. Pétur Berg hreinlega elskar hitastigið og það fer mjög vel í hann að vera léttklæddur. Svo lagði hann sig í kerrunni í skugganum.
Lýdía var svo heppin að fá skólabúning í dag  sem var saumaður á hana hér í skólanum. Blár og sætur. Mikið held ég að það myndi leysa mörg vandamál heima á landinu kalda ef allir skólar væru með skólabúning :-) þið getið séð mynd á "blogginu" hennar.
En já í dag bakaði tengdamamma æðislega góða bananaköku í sólarofninum og gæddum við okkur á henni í sólinni.
Krakkarnir voru líka að hjálpa tengdamömmu að flokka dót og liti fyrir skólan sem hafa komið með gámum frá Englandi. Ég fékk líka tækifæri til að hjálpa henni að búa til smá blaðsnepill sem gæti orðið heilsufarsskýrsla fyrir krakkana í skólanum. Mikilvægt að geta búið til eitthvað kerfi sem gerir það "einfalt" fyrir skólahjúkrunarfræðinginn að halda utan um heilsufarssögu krakkanna í skólanum.
Í kvöld við kvöldmatarborðið var Hinrik Jarl að borða súkkulaðibúðing og allt í einu var hann allur orðin útataður í brúnum búðing og sagði "nú er ég brúnn eins og krakkarnir" :-)
Alltaf jafn skemmtilegar setningar sem koma frá þeim litla manni.
Jæja .... nú förum við brátt að slökkva á rafstöðinni og vonandi fara Aron og Hinrik að renna í hlað.
Over and out...




mánudagur, 20. janúar 2014

Hjólin í Afríku

Í dag fór Aron með pabba sínum til Banfora að heimsækja nokkra forstöðumenn/pastora í þorpunum í kring. Þeir gista líklega svo í Banfora í nótt.
Við erum búin að hafa það notalegt í dag. Lýdía settist á "skólabekk"eins og aðra daga. Við erum búin að skipta því sem hún átti að vinna niður á virka daga (fram til 14. Feb) og svo sinnir hún heimanáminu á laugardögum. Síðan bökuðum við skúffuköku sem var bökuð að hluta til í sólarofninum en baksturinn kláraður í gasofninum. Það var nefnilega ekki svo sterk sól í dag. Skýjað seinnipartinn en mjög notalegt. Við fórum síðan í gönguferð með ömmu Gullý og hundurinn Gídeon elti okkur. Hinrik Jarl ætlaði ekki að vilja koma með fyrr en ég sagði honum að krakkarnir í skólanum væru í kennslustund en ekki í frímínútum. Honum finnst athyglin frá þeim stundum svolítið óþægileg. Er ekki alveg búin að venjast því að allir vilji heilsa honum og koma við hann.... haha
En jæja .....best að fara að poppa. Stelpukvöld framundan þar sem stóru karlarnir eru í ferðalagi og litlu stubbarnir sofnaðir.

sunnudagur, 19. janúar 2014

Afmæli og veðurfar

Jæja er ekki komin tími á smá línu. Dóttirin er mun duglegri að blogga en foreldrarnir ;-)
Síðan síðast er Hinrik Jarl búin að ná þeim áfanga að verða 4. Ára gamall og var það mikil gleði. Sá stutti hélt því fram að hann hefðu nú stækkað talsvert um nóttina

Afríka er að fara vel með okkur. Við erum þakklát fyrir góða heilsu og gott veður. Næturnar hafa verið frekar heitar en síðasta nótt var mjög þægileg þar sem það hafði rignt nóttina á undan og því hafði hitinn lækkað aðeins. Við erum núna komin með 3G kort í símana sem gerir okkur það kleift að fara á netið annarsstaðar en heima. Nú erum við til dæmis útí bíl að bíða eftir tengdapabba sem er að skoða sólarsellur. Mikil læti eru í öllum mótorhjólum á svæðinu. Mikið flautað og því líklegt að Burkina Faso hafi verið að vinna einhvern fótboltaleik⚽

Á morgun fer Aron í ferðalag að sinna einhverjum erindum með pabba sínum og við verðum heima með tengdamömmu.

Við vorum að koma af enskumælandi samkomu þar sem minn heittelskaði predikaði þessa líka fínu predikun. Hann predikaði í annarri kirkju síðasta sunnudag og það er búið að biðja hann um að predika annarsstaðar næsta sunnudag og ekki nóg með það heldur er búið að biðja hann að gifta líka. Það þykir víst flott að fá hvítan pastor til að gifta :-) sjáum til hvort af því verði ... haha

En þangað til næst ...

þriðjudagur, 14. janúar 2014

Afríkusólin og fleira.

Við Lýdía Líf tókum daginn snemma og vorum komin upp á þak fyrir klukkan 06:00. Tilgangurinn var sá að fylgjast með sólarlupprásinni.  Það var svalt í morgunsárið, aðeins um 21 gráða sem er talsvert kaldara en talan segir til um. Fljótlega fór að birta til en sólin sást ekki enda var hún hulin mistri á leið sinni  upp á himinhvolfið.  Í morgun var enginn vindur til þess að blása mistrinu í burtu en það er tilkomið vegna þess að flestir hér kveikja daglega eld fyrir utan hús sín til að elda mat, brenna rusl auk þess sem bíla og mótorhjólaflottinn er langt frá því að vera búin nýjasta mengunarvarnarbúnaði. Það náðist því enginn góð mynd af sólarupprás í morgun en ég læt í staðinn fylgja mynd af sólarlaginu sem var tekin nú í kvöld, sólin er stór og falleg hér í Afríku. 

Í dag var enginn skóli hjá ABC og reyndar var flest lokað hér í Bobo. Ástæðan er inn af hátíðsdögunum í Islam. Þeir er talsvert margir en einnig er haldið upp á kristna hátíðardaga.  Það vantar því ekki frídagana hér í landi.  Í dag voru  mótorhjólin tvö sem eru á heimilinu prufuð. Þetta eru bæði innflutt hjólf frá Asíu, Kóreu held ég. Annað hjólið er 3 dekkja með sturtuvagni. Aksturseignileikarnir eru ekki upp á marga fiska en það skilar sínu. Hitt hjólið er nokkuð skemmtilegt götuhjól. Ég tók hringi um hverfið, með og án frúarinnar á hnakknum. Ég hef aldrei neinn rosalegur mótorhjólamaður en það var mjög indælt að upplifa svalann sem kemur af því að þjóta um á hjóli í annars steikjandi hita.  Þetta er klárlega rétti ferðamátinn hér.

Seinnipartinn var farin rúntur að landareign sem foreldrar mínir eiga og lána foreldrafélaginu til þess að rækta maís, hnetur og baunir sem eru notaðar í skólamötuneytinu. Þetta hjálpar verulega til þess að ná endum saman í skólahaldinu enda vantar nokkuð upp á að það séu styrktaraðilar fyrir alla nemendur skólans. Landið er 5 hektarar og stendur nokkuð fyrir utan bæjarmörkin. Byggðin stækkar hinsvegar ört og líklega eru aðeins nokkur ár í að landið verði tekið undir “skipulagða” byggð.  

Á landinu býr umsjónarmaður/vörður ásamt fjölskyldu sinni í litlum kofa. Þetta er allt ósköp frumstætt, hvorki rafmagn né rennandi vatn. Þannig búa reyndar flestir í þessu landi þ.e. þeir sem ekki búa í stærstu borgum og bæjum. Fólk treystir á regntímann til þess að ná að rækta nóg til að lifa á yfir árið. Stundum gerist það að það rignir lítið eða ekkert og þá skapast hrikalegt neyðarástand. Staðan í ár er nokkuð góð og fólk virðist ánægt á meðan það hefur í sig og á.

Á morgun ætlum við pabbi að heimsækja frumstætt og afskekkt þorp og hitta fólk sem hann hefur verið að styðja við.  Konurnar og börnin verða heima á meðan enda er ekki mjög áhugavert  fyrir ungviðið að keyra langar vegalengdir til þess að eins að sitja að löngu spjalli á tungumáli sem þau skilja ekki.

Þar til síðar, Aron...




sunnudagur, 12. janúar 2014

Lífið í Afríku

Jæja nú er komin tími á nýtt blogg. Lífið hér í Bobo er dásamlegt. Veðrið er yndislegt og það væsir ekki um okkur. Krakkarnir eru mjög ánægðir þó þeim finnist stundum svolítið heitt. Þó sérstaklega á næturnar. Við erum þó að finna okkar takt í þessu og finnum að það er best að sofa með opin glugga. Það eru net fyrir gluggunum og svo sofum við undir neti. Við höfum þó ekki orðið vör við eina moskítóflugu síðan við komum hingað til Bobo en allur er varinn góður.

Aðstaðan sem tengdaforeldrar mínir eru búnir að byggja upp hér ásamt öðru góðu fólki er frábær. Skólahúsnæðið er til fyrirmyndar. Búið að setja upp litla heilsugæslustöð, handavinnustofu, matsal, stóran vatnsturn, búið að steypa körfuboltavöll og fleira og fleira. Það er magnað að fá að sjá þetta með eigin augum.

Í morgun fórum við á samkomu sem fór fram á doula og frönsku. Reyndar á ensku líka því Aron minn predikaði þessa líka fínu ræðu:-) Fólkið hér er mjög vinalegt og vilja allir heilsa með handabandi. Þetta fólk sem á og hefur frekar lítið eða jafnvel ekki neitt á milli handanna segir Bonjour, Ca va með kærleiksríkt bros á vör.

Skólalóðin er innan múra sem voru hlaðnir  og múraðir. Þar rétt fyrir utan er svínabú sem við gengum að í gær. Við það er lítill kofi sem fjölskylda  ein á (þar af fimm börn). Þau búa greinilega við mikla fátækt en öll voru þau með stórt bros á vör. Minnsta barnið sem var kannski nokkura mánaða var í fangi pabba síns (berrassað) og annað barn sem var aðeins stærra sýndi hundinum á heimilinu vald sitt og sparkaði og barði í hann og snéri hausnum á honum. Ég verð að viðurkenna að ég vorkenndi greyið hundinum. Það er ekki mikil virðing borin fyrir dýrum hér. Maður sér það á vegunum þegar verið er að flytja geitur sem eru bundnar upp á þak bíla og rútna og þar liggja þær í steikjandi hita þangað til þær eru komnar á leiðarenda.

Í dag fórum við síðan í enskumælandi kirkju þar sem Hinrik tengdapabbi predikaði og hann og Aron voru með smá tölu í tilefni þess að þetta var fyrsta samkoman í kirkjunni. Þetta var ágætis samkomumaraþon - 3. tíma samkoma og troðfullt. Ég var úti með krakkana og hlustaði í gegnum hátalarakerfið.  Já þetta var ekta Afrísk samkoma - löng og mjöööög heitt.

Jæja nóg í bili....

Gunna

p.s
Það gengur frekar hægt fyrir sig að setja inn myndir í gegnum bloggið svo ég er búin að búa til myndasafn á facebook sem heitir Burkina Faso. Bæti svo inn í það reglulega. Ef þið viljið fylgjast með því þá heitum við Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir og Aron Hinriksson á facebook :-)


fimmtudagur, 9. janúar 2014

Bobo Dialousso

Jæja.... Flugið frá París gekk ljómandi vel. Pétur Berg svaf eins og steinn í 2 tíma í byrjun ferðarinnar sem var mjög ljúft:-) Flugið tók 5,5 klst og lentum við klukkan 20:45 að staðartíma sem er sami tími og á Íslandi.  Þegar við gegnum út úr flugvélinni og niður stigann streymdi Afríkuloftið á móti okkur, heitt og með reykjakeim.

Það var svolítið skemmtileg að koma inn á flugvöllinn í Ouagadougou. Þetta var eina flugvélin sem var að lenda en allir þurftu að fara í gegnum öflugt vegabréfaeftirlit. Fyrst þurftum við að sýna bólusetningarskírteinin þ.e að við værum öll bólusett við Yellow fever. Bólusetningarskírteinið var nú ekki skoðað vel heldur bara nöfnin á kortinu sjálfu. Næst tók við röð í vegabréfseftirltið sjálft. Þegar Aron kom síðast til Burkina (2011) þá sat maður við tréskrifborð og stimplaði vegabréfin. Núna hinsvegar voru nokkrir að taka á móti fólki með vegabréfin sín og hver og einn þurfti að setja hendur á fingrafaraskanna sem þýðir að nú á Burkina Faso fingraför okkar hjóna:-) þeir slepptu börnunum... ha ha

Eftir þónokkra bið eftir farangrinum (samt vorum við eina flugvélin á alþjóðaflugvellinum í Ouagadouogu) hittum við svo mömmu og pabba hans Arons. Þetta voru miklir fagnaðarfundir og mikið ljúft og gaman að hitta þau aftur. Á flugvellinum hittum við einnig vin okkar og gamlan skólafélaga í IBTI á Englandi, Salomon Sawadougu.

Þrátt fyrir að Ouagadougu sé höfuðborg Burkina þá er ekki mikið um sterk ljós, göturnar eru frekar dimmar á kvöldinn fyrir utan götuljósin sem eru oftast í lagi og einstaka veitingastað sem er opinn.
Í Ouagadougu gistum við svo á sæmilegu gistihúsi miðað við Afríkustandard. Þar var loftkæling sem hjálpaði verulega en samt sváfu fjölskyldumeðlimir mis mikið þessa fyrst nótt sem eins og næstu 40 og eitthvað nætur verða undir moskítóneti.

Dagurinn var svo tekinn snemma í morgun, við fengum okkur einfaldan morgunverð og svo var haldið af stað í rúmlega 5 klukkustunda ferð til Bobo. Mannlífið á leiðinni var ótrúlegt. Allsstaðar var fólk og allt var öðruvísi en við eigum að venjast. Fólk selur vörur og vinnur alla mögulega vinnu í vegakantinum, fólk virðist ákaflega afslappað og tekur lífinu með ró.  Vegurinn var á köflum mjög holóttur en þrátt fyrir allt gekk ferðin mjög vel og krakkarnir voru frábærir og við komumst á leiðarenda seinnipartinn.

En nú er dagskammturinn af rafmagni búin og allir farnir að sofa. Eina hljóðið sem heyrist er í engisprettum að kvaka fyrir utan. Best að drífa sig líka í rúmið. Meira síðar...

miðvikudagur, 8. janúar 2014

CDG flugvöllur París

Jæja þá erum við komin á CDG flugvöllinn. Við sváfum mjög vel í nótt og gengum mjög fínt morgunverðarhlaðborð í morgun. Við vorum komin tímanlega á flugvöllinn vegna mikils farangurs og Tax free nóta :-)
Við höfum aldrei ferðast með svona mikin farangur en einhverntímann er allt fyrst ).

Nú erum við búin að bóka okkur inn og bíðum eftir boarding og Pétur Berg borðar Croisant.  Flugvélin er löng og breið með 3 sætaröðum svo það á eftir að fara vel um okkur. Ég vonast til að drengirnir geti sofið á leiðinni og flugið verði ljúft. Konan í innritun var svo yndisleg að hún tók frá 2 sætaraðir fyrir okkur ♡

Au revoir!

þriðjudagur, 7. janúar 2014

Ísland - París

Jæja þá er ferðalagið hafið. Við gistum hjá Söru og Jakobi systkinum Arons í nótt þannig að allir gátu sofið aðeins lengur í morgun heldur en ef við hefðum sofið heima á Selfossi. Ég er þannig gerð að ég sef yfirleitt mjög lítið nóttina fyrir flug. Vakna mjög reglulega til að kíkja á klukkuna og var því vöknuð áður en klukkan hringdi í morgun. Lýdía vaknaði rétt á eftir mér og svo vöknuðu karlmennirnir. Litlu strákarnir voru ótrúlega duglegir að vakna, enginn grátur og allir kátir og glaðir og mættir á Keflavíkurflugvöll klukkan 5:30.
Flugið gekk mikið vel. Pétur Berg svaf nánast allan tímann og Hinrik Jarl horfði á barnatímann og Lýdía er auðvitað svo stór að hún bara gerði eitthvað til að dunda sér. Við lentum í París um hádegisbil. Ljómandi fínt veður 11 stiga hiti. Ekta peysuveður. Ágætis upphitun fyrir Afríkuna :-)

Við tókum Hotel Shuttle á Hótelið okkar sem heitir Suite Novhotel og er rétt hjá flugvellinum.  Ein handfarangurstaskan okkar gleymdist í rútunni en starffólkið á hótelinu hringdi í rútuna og bílstjórinn snéri við og kom með töskuna. Frábær þjónusta það! Þetta er æðislegt hótel. Allt til alls og allir mjög sáttir. Starfsfólkið er frábært og tók mjög vel á móti okkur og leysti krakkana út með smá gjöfum.

Í dag tókum við síðan leigubíl í Aeroville verslunarmiðstöð hér rétt hjá. Versluðum aðeins og fengum að kynnast enn fleiri frábærum kurteisum frökkum. Við erum ánægð með daginn og hlökkum til að sofa vel í nótt. Flugið til Burkina Faso er síðan klukkan 16:10 að frönskum tíma á morgun og mæting klukkan 13:10.

Áætlaður flugtími er um 5,5 klst og er spáð 26 stiga hiti um það leiti sem við lendum. Já best að hafa úlpuna tilbúna og regnhlífina.... DJÓK!

Nei moskítóvörnin og og sólarvörnin verður höfð á lofti næstu vikurnar :-)

Bien Bien .....

Gunna

sunnudagur, 5. janúar 2014

Hvar er Burkina Faso?

Síðustu daga og vikur hef ég þurft að útskýra oft og fyrir mörgum hvar Burkina Faso er í heiminum og hvernig landið er.  Oft segjumst við bara vera að fara til Afríku en það er það sama og segjast vera að fara til Asíu þegar maður fer til Indlands. Í raun eru 54 lönd í Afríku sem mörg eru mjög ólík að landslagi og menningu. Því datt mér í hug að setja niður smá upplýsingar um landi.

Burkina Faso hét Efri Volta fram til ársins 1984 og margir af eldri vinum okkar gætu kannast við það nafn. Burkina er rétt sunnan við Sahara eyðimörkina og liggur hvergi að sjó heldur er umkringt af löndunum Malí í norðri, Níger í austri, Benín í suðvestri, Tógó og Ghana í suðri og Fílabeinsströndinni í suvestri.  Landið er fremur snautt af náttúruauðlindum og byggir að mestu leyti á fremur frumstæðum landbúnaði. Um 80% vinnuaflans starfar við landbúnað. Landið er því með þeim fátækustu í heiminum. Landsframleiðsla er aðeins rúmlega 1000 dollarar á mann á ári.  Íbúar eru rúmlega 15 milljónir.

Burkina er tæplega þrefalt stærra að flatarmáli en Ísland eða 274,200 km2
 

Höfuðborg Burkina heitir Ouagadougou (borið fram "vagadúgú" og þangað fljúgum við á miðvikudaginn). Þar er meira eyðimerkur loftslag en í Bobo Dialasso þar sem við verðum. Bobo er næst stærsta borg Burkina og þar er landslagið talsvert grænna. Foreldrar mínir búa og starfa í fremur fátæku hverfi í útjaðri borgarinnar.  Þar hafa þau stofnsett skóla á vegum ABC og þar stunda nú um 350 nemendur nám sem annars ætti ekki kost á námi.

Þeir sem hafa ferðast um vestur Afríku tala um það hversu gott þeim þykir að koma til Burkina Faso í samanburði við löndin í kring. Landið er friðsælt þrátt fyrir mikla fátækt og samskipti milli ólíkra þjóðfélags og trúarhópa eru almennt mjög góð. Fólkið er vinsamlegt og tekur gestum vel. Við ættum því að eiga vona á góðu:)

Meira um það síðar, Aron


miðvikudagur, 1. janúar 2014

Air France, flugmiðar og fleira ....

Þegar við pöntuðum flugið til Burkina Faso þá völdum við dagsetningar og flug þannig að flugið yrði í senn "ódýrt", stutt og þægilegt. Við erum nefnilega að ferðast með 3 börn, tvo barnabílstóla, eina kerru og nokkrar töskur.  Upphaflega áttum við að fljúga 7. janúar til Parísar, bíða svo í 4 tíma á flugvellinum í París og fljúga svo þaðan beint til Ouagadougou í Burkina Faso með Air France.
Í nóvember fengum við hinsvegar bréf frá Air France með þeim skilaboðum að búið væri að breyta fluginu okkar. Brottför frá París væri ekki kl. 16:10 eins og við höfðum pantað heldur klukkan 11 um morguninn. Það var frekar óhentugt fyrir okkur vegna þess að þá verðum við á flugi einhversstaðar á milli Íslands og Parísar.  Þetta hafði það í för með sér að annaðhvort þyrftum við að breyta Icelandair flugmiðunum og fljúga 8. janúar frá Íslandi sem var mjööög dýrt eða gista eina nótt í París. Við völdum ódýrari kostinn "að gista í París".

Við pöntuðum hótel í gegnum síðu sem við höfum nokkrum sinnum nýtt okkur á ferðalögum. Þessi síða heitir Hotwire. Þetta er mjög sniðug síða. Þar er hægt að velja borg sem þú vilt gista í og svæði sem þú vilt vera á. Síðan velur maður verð sem maður vill borga og fær að vita nafnið á hótelinu þegar búið er að borga. Við völdum stað sem við vildum gista á og svæði (nálægt flugvellinum) og pöntuðum hótelið án þess að vita hvað það hét. Síðan kom í ljós að þetta var ljómandi fínt hótel um 3 km frá flugvellinum.

Í dag ákvaðum við svo að panta okkur bílaleigubíl þennan sólahring sem við verðum í París. Planið er nefnilega að nýta ferðina og reyna að versla einhvern fatnað á okkur á janúarútsölum Í París. Það vill svo skemmtilega til að búið er að opna nýtt mall - Aeroville - sem er rétt hjá hótelinu. Vonandi lendum við á útsölum og getum fatað mannskapinn fyrir árið. Aldrei að vita nema við tökum rúnt og kíkjum á Eiffel turninn :-)

Þó svo við séum búin að panta hótel og leigja bílaleigubíl þá erum við ekki enn komin upp í þann kostnað sem hefði orðið ef við hefðum breytt Icelandair flugmiðunum ;-)