fimmtudagur, 25. janúar 2018

Fimmtudagur

Það er ótrúlega misjafnt hvernig fólk bregst við hita og svita. Ég hef dáðst að Pétri Berg næstyngsta syni okkar (5 ára) sem er að koma í annað sinn á ævinni til Burkina Faso. Hann elskar hitann. Hann elskar að fara í sólbað og nýtur þess svo sannarlega að leika við bræður sína og vini sína þau Víking og Heklu hér í afríkuhitanum. Hann var líka svona þegar hann kom hingað í fyrsta sinn þegar hann var 14 mánaða gamall. Hann gekk um allt á bleyjunni og naut þess að vera í hitanum. Hann er örugglega með sömu genasamsetningu og pabbi sinn og gæti auðveldlega búið í svona heitu landi og verið á stuttbuxum alla daga.

Í morgun tókum við eina góða æfingu á veröndinni. Það var mjög fallegt að sjá sólina koma upp og finna "kalda" loftið. Ég held að það hafi verið um 18 gráður þegar við fórum út rúmlega 6. Strákarnir vöknuðu allir þegar við vorum að fara á fætur þannig að þeir fengu að sitja inni í sófa og horfa á teiknmynd sem ég var með á tölvunni á meðan við tókum æfinguna. Eftir morgunmat fór hópurinn út á skólasvæði að finna til fatnað, skó og fleira fyrir aðra fataúthlutun af þremur á meðan við erum hér á svæðinu. Það er svo merkilegt að sjá hvaða fatnað fólkið vill helst. Teppi og ullarfatnaður fyrir börn sem hefur komið í gámunum frá Englandi er vinsælast. Þetta er eitthvað sem mér hefði aldrei dottið í hug að senda í svona heitt land áður en ég kom hingað í fyrsta sinn. Einn starfsmaður hér mætti í "mokkajakka" í morgun sem var ákaflega fyndið þar sem við vorum flest öll létt klædd og fannst veðrið ákaflega notalegt. Hér er nú samt vetur og fólk gengur stundum um í úlpum og með húfur. Ég meina hitinn er sirka 32 gráður um miðjan daginn. :)

Afríkuskólinn sem við erum með fyrir litlu íslensku börnin er að slá í gegn. Í dag lærðu þau hvar Afríka er á heimskortinu og lærðu stafina í orðinu A F R Í K A. Þeim finnst þetta ákaflega skemmtilegt. Hinriki Jarli finnst þetta heldur auðvelt þannig að við þyngjum verkefni vel fyrir hann og þegar hann er búin fær hann að vinna í námsefninu sem kennarinn hans sendi hann með.  Síðan hann kom er hann búin að klára eina Risasyrpu og er byrjaður á annarri. Það er svo skemmtilegt að fylgjast með honum á kvöldin þegar við erum að fara að sofa þar sem hann situr í rúminu sínu með moskítónetinu með lítið lesljós því hann er svo spenntur yfir því sem hann er að lesa. Það gleður mömmu og kennarahjartað.

Hópurinn vann ýmis verkefni í dag. Einar Aron fór og sýndi töfrabrögð í skólanum. Stelpurnar fóru og dreifðu tannburustum og tannkremur sem hafði verið gefið frá Íslandi. Síðan voru málaðar línur á handboltavöllinn, fataúthlutun morgundagsins undirbúin og svæðið mælt.

Ég fékk að nota sólarofninn í annað skiptið í dag og bakaði eina af mínum uppáhalds. Súkkulaði, döðluköku. Það tókst ákaflega vel. Það er eitthvað svo dásamlega krúttlegt að baka í sólarofni. Eitthvað einfalt og dásamlegt.

Nú er hópurinn komin saman á kvöldstund. Við hittumst í stofunni eftir að litlu börnin eru sofnuð og deilum "lífssögu" okkar með hvort öðru. Það er ákaflega skemmtilegt verkefni sem gerir það að verkum að við lærum að þekkja hvort annað betur.

Au revoir í bili!


miðvikudagur, 24. janúar 2018

Miðvikudagur

Það er eitthvað svo dásamlegt við það að að komast út úr hversdagsleikanum, kuldanum og kalda íslenska vindinum. Við íslendingar getum þó þakkað svo margt. Hér býr fólk við einfaldleika, lélegan húsakost og lítið úrval af mat ef það fær mat. Á Íslandi fáum við oft of mikið af mat og erum með heit og notaleg hús og höfum það í raun mjög gott. Það er líka mjög gott að upplifa hvað áreitið er mun minna hér og þá er ég sérstaklega að tala um "netáreiti". Það er ákveðið frelsi i því að komast ekki á netið eftir pöntun.

Í morgun var úthlutun á ABC skólanum. Það þýðir að foreldar barnanna á skólanum sem eru rúmlega 600 talsins fengu að koma og velja sér fatnað, leikföng, skó og eldhúsáhöld. Við vorum komin á skólasvæðið rétt rúmlega 7 og hópurinn hjálpaðist að við að undirbúa og taka fatnað og skó úr gámum sem komu frá Englandi.

Eftir það undirbjó hluti hópsins fataúthlutun sem verður á morgun og við "mömmurnar" í hópnum fórum og undirbjuggum kaffitíma. Við skelltum í snúða sem voru svo settir í sólarofninn.  Merkilegt hvað sólinn getur gert hér í Afríku. Við erum svo með Afríkuskóla fyrir minni börnin í hópnum (talsins) þar sem þau vinna ákveðin verkefni á dag og eru hvert og eitt með sína vinnubók. Það er mjög skemmtilegt og góður undirbúningur fyrir þau sem eru að byrja í skóla í haust.

Börnin okkar hafa upplifað allskonar tilfinningasveiflur í þessari ferð. Þau verða samt einna helst pirruð ef þau er svöng og þreytt. Það er að komast ákveðin rútína í gang sem er mjög gott fyrir þau.  Hér er vaknað snemma og farið snemma að sofa. Það er best að baða þau úti um kl. 17 áður en það verður myrkur. Hér er vatnið kalt í sturtunum og því betra að þvo þau úti á meðan sólin skín. Við höfum farið út með stóra bala og skolað þau með slöngunni og leyft þeim svo að setja í balann. Það er ótrúlegt hvað við öll verðum skítug hér. Sandur út um allt :)

Nú er "siesta" sem þýðir að það er pása og hvíldartími. Það er svo heitt úti á þessum tíma að það er gott að fá smá pásu. Sumir fara í sólbað, aðrir leggja sig áður en haldið verður áfram með verkefni dagsins.

Ég ætla að búa til myndalbúm inn á facebook og svo getið þið fylgst með á Instagram. Ég set oftar inn  myndir þar þegar ég kemst á internet. Instragram - ið mitt er gunnastella.

Au revoir.

mánudagur, 22. janúar 2018

Komin til Burkina Faso



Jæja þá erum við komin til Bobo í Burkina Faso. Við flugum áleiðis með WOW air til Parísar á föstudagsmorguninn. Við þurftum að bíða í nokkra klukkutíma á Charles de Gaulle flugvellinum áður en við héldum áleiðis með Air France. Það var frábært að vera með svona mörg börn í hópnum þar sem okkur var hleypt framfyrir í röðum sem gerði ferðina mun þægilegri. Flugið var frábært báða leggi.

Að lenda á flugvelli í Burkina Faso er sérstök upplifun. Flugvöllurinn er líklega ekki mikið stærri en flugvöllurinn á Akureyri og Air France vélin því mjög stór á þessum litla flugvelli. Vinur okkar hann Salomon tók á móti okkur ásamt bílstjóra og bíl sem hann hafði reddað okkur til að leigja. Við gistum fyrstu nóttina á Kaþólsku gistiheimili sem var nokkuð gott miðað við Burkina Faso en miðað við íslenskan standard myndi það ekki skora mjög hátt. Það var mikill kostur að hafa viftu í herberginu þrátt fyrir að veðrið hafi verið kaldara en maður átti von á (23°).

Á laugardagsmorgun lögðum við af stað á lítilli 15 manna Toyotu áleiðis til Ouagadougu. Með þrem pissistoppum tók ferðin rúma 7 tíma. Hún gekk ótrúlega vel þrátt fyrir hita, ryk og smá bílveiki. Okkur leið eins og sardínum í dós en vorum þakklát fyrir að bíllinn var með bílbelti.

Fyrstu dagarnir hér hafa verið frábærir. Gullý og Hinrik tóku vel á móti okkur og það er frábært að vera hér. Fyrsti dagurinn okkar var sunnudagur. Við fórum snemma í kirkju. Öll skilningarvit voru virk. Mikið dansað. Fallegt fólk í litríkum og fallegum fötum. Lyktin var blönduð af hita og svita og söng í tónhæð sem við eigum erfitt að fylgja. Aron predikaði og samkoman gekk vel.

Í dag erum við búin að fá útsýniferð um skólalóðina. Svæðið er magnað. Grunnskóli, framhaldsskóli, matsalur, verkmenntaskóli, blakvöllur, körfuboltavöllur, fótboltavöllur og fleira. Næstu daga fær hópurinn að taka þátt í ýmsum verkefnum sem verður jákvætt og skemmtilegt.

Börnin hafa staðið sig afar vel og elska að komast út á stuttbuxum en finnst líka mjög gott að komast inn og kæla sig smávegis. Hér er drukkið mikið af vökva og mikið notað af handspritti til að þrífa hendur. Mangóið er dásamlegt og fáum við okkur dásamleg Burkina mangó á hverjum degi.

Ég næ vonandi að skrifa meira ef netið leyfir á morgun. Einfaldleikinn og gleðin í fólkinu hér snertir við hjarta manns og við er þakklát fyrir að vera hér.


miðvikudagur, 10. janúar 2018

Erum við rugluð?

Í gegnum tíðina hefur mörgum fundist við Aron vera rugluð að ferðast svona mikið og ekki bara það að við skulum ferðast heldur líka það að við ferðumst yfirleitt með börnin okkar með. Börnin okkar elska að ferðast og eiga dýrmætar minningar af fjölskylduferðalögum. Það að ferðast er eitt það skemmtilegasta sem við gerum. Þegar við ferðumst þá leitum við að ódýrum flugmiðum. Kaupum flugmiðana einna helst þegar það eru tilboð (WOW er dásamlegt þegar kemur að tilboðum). Við finnum gistinguna sjálf og kaupum ekki pakkaferðir. Við leggjum til hliðar pening (oftast mánaðarlega) til að eiga fyrir ferðalögum því við viljum ekki taka lán fyrir þeim. Þegar við erum komin á þá staði sem við höfum ferðast á þá borðum við sjaldan á veitingahúsum og erum yfirleitt með nesti yfir daginn og eldum svo þar sem við gistum á kvöldin. Ef við förum á veitingahús er það undantekning en auðvitað fer það eftir löndum. Sumsstaðar er mjög ódýrt að borða á veitingahúsum. Ég gleymi því t.d ekki hvað það var ódýrt að borða á veitingahúsi í Indlandi. 200 krónur á mann minnir mig að það hafi verið.

Núna er farin að koma Afríkufílingur í mann. Tvisvar í þessari viku er ég búin að elda mat sem samanstendur af steiktu grænmeti og hýðishrísgrjónum eða kínóa. Út í þetta hef ég skellt baunum og einhverskonar tómatsoði og bakað einfalt brauð með. Í Burkina Faso er fæðið einfalt. Það samanstendur af einhverjum svona mat ásamt besta mangó í heimi, bönunum og hnetusmjöri. Síðast þegar við fórum vorum við í 6 vikur og ég var ekki farin að sakna matarins hér heima. Núna verðum við í tvær vikur og ég er farin að hlakka til að borða dásamlega einfaldan mat og hitta fólkið í Burkina sem er svo glaðlegt og ánægt þrátt fyrir að eiga lítið.


laugardagur, 6. janúar 2018

Burkina Faso eftir tvær vikur

Nú held ég að það sé komin tími til að byrja að blogga aftur. Við fjölskyldan (Aron 36, Gunna 36, Lýdía 14, Hinrik Jarl 7, Pétur Berg, 5 og Lúkas Lár 2) erum að fara til Burkina Faso eftir tæpar tvær vikur. Nú erum við orðin 6 manna fjölskylda og því örlítið fleiri en þegar við fórum til Burkina síðast. Sá stutti (Lúkas Lár) sem er orðin 2 ára og 4 mánaða er búin að fá alla grunnbólusetningarnar sem þörf er á fyrir ferð sem slíka. Yellow fever, Lifrabólgu A og b, Taugaveiki, Heilahimnubólgu o.sfrv. Við hin þurftum að fá boozt á þær bólusetningar sem voru útrunnar en ekki þessar stærstu sem gilda lengst. Bólusetningar eru stór fjárfesting en opna um leið tækifæri til að ferðast til framandi landa. Eins og flestir vita sem þekkja okkur þá elskum við að ferðast. Við höfum þó ekki verið duglega að blogga um ferðalögin sem við höfum farið í síðan við fórum sem fjölskylda til Burkina Faso síðast en það verður skemmtilegt að skrásetja þessa ferð. Við erum að fara með hópi af frábæru fólki að heimsækja tengdaforeldrana sem vinna enn í dag af öllu hjarta að uppbyggingu ABC skólans í Burkina Faso. Hér fyrir neðan má sjá bólusetningarævintýrið okkar frá því í vikunni sem leið. 


laugardagur, 21. júní 2014

Flórida eftir nokkra daga

 Ég er svo mikið þakklát fyrir það að hafa fengið að upplifa sumar í janúar og febrúar. Það ruglaði líkamsklukkuna þó allhressilega því lengi vel eftir því sem nær dró vorinu þá fannst mér alveg eins og það væri haust og fljótlega kæmu jól. En þetta algjörlega fyllti á sólartankinn. Það sem af er sumri hefur sólin nú látið sjá sig í nokkra daga hér og þar. Íslensku sumarkvöldin eru dásamlegasti tími sumarsins. Þá kemur algjör stilla, fuglarnir syngja og veðrið er dásamlegt. En núna í næstu viku er komið að því að yfirgefa landið "kalda" og fallega og fara á vit ævintýranna í Ameríkunni. Mörgum finnst við kannski pínu skrítin að ætla til Flórída á "High season" tíma í mikinn mikinn hita og raka. En við fengum góðan hitaundirbúning í Afríku:-)  En ástæðan fyrir þessari ferð er fyrst og fremst sú að við erum að fara á ráðstefnu 9-11. júlí sem heitir Celebrate Recovery Summit. En við ætlum að gera smá frí úr þessu í leiðinni og förum tvær fjölskyldur saman. Við erum nefnilega svo heppin að eiga frábæra ferðafélaga sem heita Dagbjört og Þorsteinn. Þau kynntust á ferð okkar um Indland árið 2007 og saga þeirra var síðar meir ástarsaga sem endaði á því að þau giftu sig árið 2008. Börnin okkar og þeirra eru líka mjög góðir vinir og því mjög hentugt og gott að hafa leikfélaga í ferðinni.

En brottför frá Íslandi er eftir nokkra daga þegar dóttir okkar er búin að fá að halda upp á og eiga 11. ára afmæli. Ótrúlegt hvað barnið eldist en við foreldarnir ekki….



http://www.celebraterecovery.com/events/summit-2014/ecs

fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Ísland fagra Ísland

Jæja þá erum við komin heim í kuldalandið fagra og góða. Ferðin gekk ljómandi vel. Við lögðum af stað frá Ouagadougu kl 21:10 18. febrúar og vorum lent í París klukkan 5 um morguninn 19. febrúar. Við vorum sem sagt um 8 tíma í vélinni þar sem við millilentum í Niamey. Strákarnir sofnuðu fyrir flugtak og sváfu meira og minna þangað til við lentum í París. Eftir 7 tíma setu í nánast sömu stellingu með Pétur Berg í fanginu varð ég eitthvað ógurlega skrítin. Máttlaus, óglatt og eitthvað mjög furðuleg. Aron var sofandi akkúrat á þeim tímapunkti í sætinu fyrir aftan mig svo ég kallaði á flugþjóninn og bað hann um að taka Pétur Berg og rétta Aroni hann. Flugþjóninn sagði mér að leggjast á gólfið sem ég og gerði með fætur upp í loft og þá fór blóðið á hreyfingu. Hann sagði að þetta væri algengt hjá fólki á flug þar sem það vantaði blóðflæði til heilans og mjög líklegt að þetta hafi gerst af því að ég var búin að vera í sömu stellingu svo lengi. Allavega leið mér mun betur eftir að hafa legið í hálftíma á gólfinu en var eitthvað tuskuleg meira og minna allan daginn. En ég sagði við Aron ... vá hugsaðu þér ef maður gæti legið alveg flatur þegar maður er á flugi. Þvílíkur lúxus... kannski kemur að því einn daginn að maður fljúgi á svona "sleeper" class :-) hver veit? ha ha...

En við biðum svo í París í um 7 tíma. Fórum með Icelandair heim um hádegi. Hinrik Jarl sagði þegar við vorum komin í vélina og flugfreyjan talaði við okkur á íslensku. Hún talar íslensku:-) Ferðin heim gekk ljómandi vel og við lentum á landinu kalda rétt fyrir kl. 16:00 í 5. stiga hita. Þannig að hitamismunurinn var um 30 gráður. Á leiðinni heim frá flugvellinum fórum við í heimsókn til Söru og Jakobs sem eru systkini Arons. Þau voru búin að kaupa þetta líka ljómandi fína sætabrauð handa okkur...nammi namm. Síðan fórum við heim á leið í mjög miklu roki. Aroni leist ekkert á blika svo við keyrðum þrengslin í stað þess að fara yfir heiðina. Það má því segja að íslenskt veður hafi DANSAÐ af gleði yfir því að við værum komin heim.

Í dag erum við búin að hitta fjölskyldu og vini sem hefur verið yndislegt. Svo gott að koma heim og hitta fólkið sitt. Lýdía Líf fór hress og kát í skólann og Hinrik Jarl vildi ólmur drífa sig í leikskólann til að gefa deildinni sinni Afríkupúsl og hitta vinina sína. Aron fór svo að útrétta ýmislegt og byrjar svo að vinna í Vallaskóla aftur á morgun. Við Pétur Berg vorum heima og fengum frábæra gesti. Dagbjört vinkona mætti fyrst á svæðið, svo mamma og Hreinsi og síðan Helga og Tómas. Mikið, mikið gaman að hitta þau öll. Lýdía kom svo heim með þrjár vinkonur sínar og Hinrik Jarl fékk Kristveigu Láru og Gabríel í heimsókn.

Við erum svo mikið þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að fara í þessa ferð. Við eiginlega trúum því ekki að við séum búin að fara og komin heim aftur. Tíminn var svo fljótur að líða. Það er svo margt sem við höfum tekið sem sjálfsagðan hlut í lífinu almennt. Lýdía Líf kom til mín í gær voðalega kát og sagði "Mamma, það er æðislegt að geta fengið sér kalt vatn beint úr krananum". Það er mjög sjálfsagt fyrir okkur íslendinga sem höfum hreint og tært vatn og nóg af því. En það er ekki sjálfsagt í Afríku þar sem fólk þarf að fara langar leiðir til að safna að sér vatni.

Takk elsku Gullý og Hinrik fyrir að taka á móti okkur fjölskyldunni. Takk fyrir að umbera lætin í okkur, sérviskuna og allt það sem fylgir ólíkur karakterum og einstaklingum. Það var frábært að vera með ykkur og sjá allt það frábæra starf sem þið eruð að byggja upp.

Efst í huga mér er eitt orð

ÞAKKLÆTI