laugardagur, 21. júní 2014

Flórida eftir nokkra daga

 Ég er svo mikið þakklát fyrir það að hafa fengið að upplifa sumar í janúar og febrúar. Það ruglaði líkamsklukkuna þó allhressilega því lengi vel eftir því sem nær dró vorinu þá fannst mér alveg eins og það væri haust og fljótlega kæmu jól. En þetta algjörlega fyllti á sólartankinn. Það sem af er sumri hefur sólin nú látið sjá sig í nokkra daga hér og þar. Íslensku sumarkvöldin eru dásamlegasti tími sumarsins. Þá kemur algjör stilla, fuglarnir syngja og veðrið er dásamlegt. En núna í næstu viku er komið að því að yfirgefa landið "kalda" og fallega og fara á vit ævintýranna í Ameríkunni. Mörgum finnst við kannski pínu skrítin að ætla til Flórída á "High season" tíma í mikinn mikinn hita og raka. En við fengum góðan hitaundirbúning í Afríku:-)  En ástæðan fyrir þessari ferð er fyrst og fremst sú að við erum að fara á ráðstefnu 9-11. júlí sem heitir Celebrate Recovery Summit. En við ætlum að gera smá frí úr þessu í leiðinni og förum tvær fjölskyldur saman. Við erum nefnilega svo heppin að eiga frábæra ferðafélaga sem heita Dagbjört og Þorsteinn. Þau kynntust á ferð okkar um Indland árið 2007 og saga þeirra var síðar meir ástarsaga sem endaði á því að þau giftu sig árið 2008. Börnin okkar og þeirra eru líka mjög góðir vinir og því mjög hentugt og gott að hafa leikfélaga í ferðinni.

En brottför frá Íslandi er eftir nokkra daga þegar dóttir okkar er búin að fá að halda upp á og eiga 11. ára afmæli. Ótrúlegt hvað barnið eldist en við foreldarnir ekki….



http://www.celebraterecovery.com/events/summit-2014/ecs

fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Ísland fagra Ísland

Jæja þá erum við komin heim í kuldalandið fagra og góða. Ferðin gekk ljómandi vel. Við lögðum af stað frá Ouagadougu kl 21:10 18. febrúar og vorum lent í París klukkan 5 um morguninn 19. febrúar. Við vorum sem sagt um 8 tíma í vélinni þar sem við millilentum í Niamey. Strákarnir sofnuðu fyrir flugtak og sváfu meira og minna þangað til við lentum í París. Eftir 7 tíma setu í nánast sömu stellingu með Pétur Berg í fanginu varð ég eitthvað ógurlega skrítin. Máttlaus, óglatt og eitthvað mjög furðuleg. Aron var sofandi akkúrat á þeim tímapunkti í sætinu fyrir aftan mig svo ég kallaði á flugþjóninn og bað hann um að taka Pétur Berg og rétta Aroni hann. Flugþjóninn sagði mér að leggjast á gólfið sem ég og gerði með fætur upp í loft og þá fór blóðið á hreyfingu. Hann sagði að þetta væri algengt hjá fólki á flug þar sem það vantaði blóðflæði til heilans og mjög líklegt að þetta hafi gerst af því að ég var búin að vera í sömu stellingu svo lengi. Allavega leið mér mun betur eftir að hafa legið í hálftíma á gólfinu en var eitthvað tuskuleg meira og minna allan daginn. En ég sagði við Aron ... vá hugsaðu þér ef maður gæti legið alveg flatur þegar maður er á flugi. Þvílíkur lúxus... kannski kemur að því einn daginn að maður fljúgi á svona "sleeper" class :-) hver veit? ha ha...

En við biðum svo í París í um 7 tíma. Fórum með Icelandair heim um hádegi. Hinrik Jarl sagði þegar við vorum komin í vélina og flugfreyjan talaði við okkur á íslensku. Hún talar íslensku:-) Ferðin heim gekk ljómandi vel og við lentum á landinu kalda rétt fyrir kl. 16:00 í 5. stiga hita. Þannig að hitamismunurinn var um 30 gráður. Á leiðinni heim frá flugvellinum fórum við í heimsókn til Söru og Jakobs sem eru systkini Arons. Þau voru búin að kaupa þetta líka ljómandi fína sætabrauð handa okkur...nammi namm. Síðan fórum við heim á leið í mjög miklu roki. Aroni leist ekkert á blika svo við keyrðum þrengslin í stað þess að fara yfir heiðina. Það má því segja að íslenskt veður hafi DANSAÐ af gleði yfir því að við værum komin heim.

Í dag erum við búin að hitta fjölskyldu og vini sem hefur verið yndislegt. Svo gott að koma heim og hitta fólkið sitt. Lýdía Líf fór hress og kát í skólann og Hinrik Jarl vildi ólmur drífa sig í leikskólann til að gefa deildinni sinni Afríkupúsl og hitta vinina sína. Aron fór svo að útrétta ýmislegt og byrjar svo að vinna í Vallaskóla aftur á morgun. Við Pétur Berg vorum heima og fengum frábæra gesti. Dagbjört vinkona mætti fyrst á svæðið, svo mamma og Hreinsi og síðan Helga og Tómas. Mikið, mikið gaman að hitta þau öll. Lýdía kom svo heim með þrjár vinkonur sínar og Hinrik Jarl fékk Kristveigu Láru og Gabríel í heimsókn.

Við erum svo mikið þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að fara í þessa ferð. Við eiginlega trúum því ekki að við séum búin að fara og komin heim aftur. Tíminn var svo fljótur að líða. Það er svo margt sem við höfum tekið sem sjálfsagðan hlut í lífinu almennt. Lýdía Líf kom til mín í gær voðalega kát og sagði "Mamma, það er æðislegt að geta fengið sér kalt vatn beint úr krananum". Það er mjög sjálfsagt fyrir okkur íslendinga sem höfum hreint og tært vatn og nóg af því. En það er ekki sjálfsagt í Afríku þar sem fólk þarf að fara langar leiðir til að safna að sér vatni.

Takk elsku Gullý og Hinrik fyrir að taka á móti okkur fjölskyldunni. Takk fyrir að umbera lætin í okkur, sérviskuna og allt það sem fylgir ólíkur karakterum og einstaklingum. Það var frábært að vera með ykkur og sjá allt það frábæra starf sem þið eruð að byggja upp.

Efst í huga mér er eitt orð

ÞAKKLÆTI

þriðjudagur, 18. febrúar 2014

Flugvöllur... check

Í dag er systir mín 40. Ára. Til hamingju með daginn elsku systir mín Anna Rósa :-) 
Hlakka til að hitta þig þegar þú kemur heim í sumar:-)

En.... þá erum við komin á flugvöllinn í Ouagadougou. Í morgun kláruðum við að pakka. Þegar ég var að greiða Lýdíu og setja í hama fastar fléttur kom Salomon til okkar og fór að tala um hvað hárið á henni væri fínt. Þá sagði ég honum að Lýdíu langaði svo í afrískar fléttur. Salomon sagði að það væri nú lítið mál og hringdi eitt símtal og eftir smá stund kom ung kona á reiðhjóli sem fléttaði Lýdíu:-)

Eftir hádegi fórum við á hótel sem var með sundlaug. Það var ósköp notalegt. Við fengum að fara "frítt" í sund á þeim forsendum að við myndum borða kvöldmat á veitingahúsinu. Það mjög gaman að vera þar í rólegheitunum í smá tíma. Hinrik og Hinrik Jarl fóru í smá göngu um garðinn og komu til baka mjög hissa því þeir höfðu séð dýr sem þeir áttu ekki von á að sjá. KRÓKÓDÍL. Hinrik Jarl hafði ólmur viljað opna hurðina hjá honum sagði Hinrik. Við fórum og skoðuðum dýrið og þá uppgötvaði Hinrik Jarl að krókódíllinn var lifandi. Hann hélt að hann væri dauður eins og hann sagði sjálfur frá þangað til hann sá krókodílinn blikka auga.... úúúúú :-) en þetta var mjög óvænt og skemmtilegt.

Kvöldmaturinn var dásamlegur. Gott kjöt og meðlæti svo við ættum að vera södd þar til við fáum að borða í flugvélinni. Við millilendum í Niamey og áætluð lending í París er kl 6 í fyrramálið að frönskum tíma eða 5 að íslenskum og Burkina tíma.

Þetta hefur verið dásamlegur tími með mörgum áskorunum. Það er gott til þess að vita að tengdó koma heim eftir rúman mánuð svo það verður ekki eins langt "aðskilnaðar"tímabil og síðast. Það er svo dýrmætt hvað börnin hafa kynnst þeim vel á þessum sex vikum.

Takk fyrir okkur elsku Gullý og Hinrik. Við erum mikið þakklát.

Nú er boarding....

Þangað til næst, Au revoir

mánudagur, 17. febrúar 2014

Býflugur og fleira

Jæja þá er síðasta nóttin í Burkina Faso að "renna" í hlað. Ótrúlegt hvað tíminn hefur liðið hratt.

Í morgun fórum við að skoða ævintýratré sem er hér rétt hjá húsinu sem við gistum í. Eini "gallinn" ef galla má kalla var sá að í trénu var býflugnabú í svona sirka 10 metra hæð. Þannig að það að ganga að trénu var ekki mikið fagnaðarefni hjá öllum fjölskyldumeðlimum. En á endanum skoðuðu allir tréð. Það er nefnilega best að stíga á móti óttanum og sigra hann. Það hef ég allavega lært í gegnum tíðina.

Við kíktum svo á nemendurna í Biblíuskólanum. Aron og Hinrik voru lengur en við hin og fengu margar margar spurningar sem þeir reyndu að svara af bestu getu. Eftir hádegi fórum við Aron og krakkarnir í gönguferð um svæðið þar sem nemendurnir hér á skólanum búa. Þeir búa ásamt fjölskyldum sínum í einu herbergi og eru með eldhús úti. Það sem er svo skemmtilegt við þetta svæði er að það eru margar fjölskyldur og mikið mannlíf á svæðinu og mjög mikið af börnum. Það er því mikill samgangur eins og algengt er hér á landi.

Eftir því sem við gengum lengra því stærri varð barnahópurinn sem elti okkur og umkringdi á alla vegu. Frekar krúttlegt.

Krakkarnir léku svolítið við börnin hans Salomons í dag. Það var gaman að leyfa þeim að kynnast svolítið.

Seinnipartinn fórum við svo að skoða kirkju og grunnskóla sem Salomon rekur. Fátæktin er mikil þar í kring og fólkið býr í litlum kofum. Þegar við komum heim heyrðum við hrópað könguló könguló. Lýdía hljóp inn í herbergi og Hinrik Jarl sagði ég var rosa hræddur. Köngulóinn hvarf og allir héldu að þetta hefði verið einhver "smá" könguló þangað til....
Ég sá hana á yfirbyggðu veröndinni. Já ... þetta var sú stærsta sem ég hef séð og líka sú stærsta sem tengdamamma hefur séð á þeim árum sem þau hafa verið hér. Jakkkk....

Aron fékk heiðurinn af því að drepa skepnuna með skó pabba síns. En fyrst smellti hann af einni mynd ;-)

.... vona bara að okkur dreymi ekki köngulær -rælugnök í nótt. Veit ekki hvort ég ætti að setja mynd hér á bloggið.

Nei!!!!

Samkomumaraþonið

Í gær var samkomumaraþonið mikla. Við fórum í fyrstu kirkjuna kl 7 um morguninn. Yndisleg kirkja og mjög fjölmenn. Það fyndna var að salurinn aem var frekar stór var hálf tómlegur þegar samkoman byrjaði en troðfullur þegar hún endaði. Þetta minnti mig á Indland um árið. Ekki Indian stretchible time heldur afrixan stretchible time;-). Svo fólk mætti þegar því hentaði;-) Aron predikaði á þessari samkomu. Ég heyrði ræðuna reyndar ekki þar sem ég fór með börnin út þegar á leið. En mér skilst á tengdó að þetta hafi verið frábært hjá honum:-).

Þegar við vorum á þessari samkomu frétti Aron að hann ætti að predika á samkomu kl 9:30 í Village of hope þorpi sem við vorum að fara að heimsækja. Þar er heimavistarskóli fyrir 500 börn sem Pastor Michel og konan hans hún Lydia reka. Samkomusalurinn var því troðfullur af yndislegum börnum á öllum aldri. Aron sauð saman ræðu og talaði til krakkanna. Við vorum síðan boðin í mat til  Michel og Lydiu. Seinnipartinn kíktum við svo á African art markaðinn. Alltaf gaman að skoða svona markaði.

Konan hans Salomons sér svo vel um okkur að hún eldar fyrir okkur og sendir mat til okkar í húsið sem við gistum í. Húsin hér eru frekar lítil svo það er erfitt að taka á móti hópi fólks í mat á matmálstíma. Í gærkvöldi predikaði Aron svo á samkomu hjá Biblíuskólanum. Það var frábær stund en þeir feðgar Aron og Hinrik fóru þangað en við vorum heima til að leyfa drengjunum að fara snemma í rúmið. Börnin voru mjög þreytt í gær eftir early rise ...

En meira síðar ...

laugardagur, 15. febrúar 2014

Rassadillingar og fjör

Við komum heim til Salomons um klukkan 18 í gær. Það var gaman að hitta hann og fjölskylduna hans. Hann á 4 börn þar af einn dreng sem heitir Daniel og er jafn gamall og Hinrik Jarl. Þegar við sátum úti á verönd hjá Salomon fylltist veröndin af börnum á öllum aldri. Þeim þótti Hinrik Jarl og Pétur Berg mjög áhugaverðir. Hinrik Jarl fór strax í leik við syni hans Salomons, hann  Daniel og hann Jonatan. Leikurinn snérist um það að kasta einum skónum hans Hinriks Jarls á milli sín. Það þarf ekki flókin leikföng.

Við gistum í húsi sem kristniboðar bjuggu eitt sinn í. Það er orðið frekar lúið og ekki verið búið hér í einhvern tíma og því mikil viðbrigði að koma hingað eftir að vera hjá tengdó þar sem hér eru rakaskemmdirs ofl.  Við vorum líka mjög þreytt og lúinn eftir 7. Tíma akstur í gær svo allt varð bjartara og betra þegar við vöknuðum í morgun. Svæðið hér er mjög fallegt og það var yndislegt að sitja úti á verönd í morgun og borða morgunmat.

Salomon er kennari hér á Cubri. Þetta er stór Biblíuskólalóð og um 100 nemendur hér. Margir þeirra eiga stórar fjölskyldur svo hér er mjög fjölmennt. Núna er í gangi kristilegt mót. Við fórum á útisamkomu í kvöld sem var algjörlega frábær. Tónlistin var fjörug og skemmtileg og alls ekki á blastinu eins og oft vill vera hér í Afríkunni.

Það var svo skemmtilegt að fylgjast með fólkinu og sjá svo konuhóp koma í beinni röð fyrir framan sviðið með ekta flottar rassadillingar og svo dönsuðu þær Guði lof eins og Davíð konungur gerði. Aron stóð sig vel í predikarahlutverkinu og svo tókum við íslendingarnir lagið. Sungum lagið sem gæti verið titillag þesarar ferðar. "Takk, takk Jesú". Ástæðan er sú að Hinrik Jarl var alltaf að syngja þetta lag í upphafi ferðar. Hann tekur oft ástfóstri við einhver lög og í janúar var það þetta lag. Pétur Berg sem er á fullu að bæta við sig nýjum orðum greip lagið fljótt og byrjaði að syngja "da, da" eða takk takk ... alveg í réttum takti. Hann byrjar reglulega á þessu lagi og allir taka undir. Nú hefir lagið þróast hjá honum og syngur hann "da, da dududd" eða "takk, takk Jesús". Hann svaf reyndar samkomuna áðan af sér svo hann söng ekki fyrir allt fólkið áðan:-).

Jæja...ræs í fyrramálið kl 5 þar sem við erum að fara á samkomu hjá forsetanum (forseta Assemblies of God hér í Burkina) klukkan 7 og það tekur um klst að komast þangað....og hver á að predika? :-)

föstudagur, 14. febrúar 2014

Langferð

Jæja þá erum við komin til höfuðborgarinnar Ouagadougou. Löng og ströng ferð. Lögðum af stað klukkan 11 og nú er klukkan 17:30. Allir orðnir þreyttir í rassinum ... en börnin ótrúlega dugleg en þreytt. Við erum ekki komin á leiðarenda því við eigum eftir að keyra heim til Salomons sem á heima 25 km fyrir utan Ouaga. Það er ekki víst að það sé netsamband þar svo ég ákvað að blogga á meðan við erum enn í "menningunni".

Á leiðinni sáum við marga bilaða vörubíla og tvo sem höfðu farið út af og annar þeirra hafði brunnið. Það eru oft frekar lélegir þessir flutningabílar hér og mjög oft ofhlaðnir og jafnvel skakkir. Það eru nú samt sem áður mjög nýlegir og dýrir bílar hér svo það virðist vera að sumir eigi meiri peninga en aðrir.

Það var mjög skrítið að kveðja Bobo í morgun og erum öll sammála því að okkur langar mikið að koma hingað aftur. Vonum virkilega að Guð opni það tækifæri einn góðan veðurdag. Hinrik Jarl kvaddi vin sinn Jipril í morgun og gaf honum smá gjöf. Ég hefði helst viljað taka hann með mér heim. Hann er svo mikið yndislegur drengur og brosmildur þrátt fyrir mjög erfiðar heimilisaðstæður.

Já ég held það hafi haft meiri áhrif á okkur að vera hér en við gerum okkur grein fyrir.

fimmtudagur, 13. febrúar 2014

Aðalhaninn

Rafstöðin sem við sóttum í dag er eitthvað léleg svo það verður ekkert rafmagn í kvöld. Náði smá hleðslu á símann en hann slekkur fljótlega á sér.

Nú er síðasta kvöldið okkur hér í Bobo runnið upp. Síðasta kvöldmáltíðin var þessi líka ljómandi góði og fallegi hani. Já þetta var einn af aðalhanagæjunum. Svona er lífið í henni Afríku. Kjötið er NÝTT.

Þetta hefur verið góður tími hér í Bobo. Tími sem við gleymum seint og eigum eflaust eftir að sjá betur þegar heim verður komið hvað við hödum lært sem fjölskylda og hvernig þessi tími hefur mótað okkur sem einstaklinga. Við erum mikið þakklát fyrir þetta frábæra tækifæri að vera með Hinrik og Gullý og sjá með eigin augum hvað þau eru að vinna að hér úti.

Í dag höfum við verið að pakka niður og ljúka ýmsu. Aron er langt komin með að setja enskan texta á seinni heimildarmyndina sem hann er að gera. Nokkkrir drengir héðan af svæðinu horfðu dolfallnir á hann klippa myndina.  Við tókum trampolínið niður seinnipartinn þar sem það er ekki hægt að nota það á skólalóðinni á meðan það er ekkert öryggisnet. Pabbinn og afinn urðu að prófa eins og sést á myndunum :-)
Við fórum líka í smá vatnsblöðrustríð ...og mikið var notalegt að fá kalda vatnagusu í hitanum.

Pétur Berg er orðin svolítið kvefaður en fékk nú samt að vera úti að leika þar sem honum líður best. Hinrik Jarl er frjáls eins og fuglinn og elskar að hitta krakkana hér. Það var skemmtilegt að sjá hann áðan í fótbolta við nokkra stráka sem notuðu sprungin körfubolta sem fótbolta. Lýdía er orðin mikið spennt að hitta vinkonur sínar heima á Íslandi. En hlakkar líka til að hitta dætur hans Salomons vinar okkar sem við vorum með í skóla á Englandi.

Við verðum hjá Salomon þangað til á þriðjudaginn. Áætlað flug heim 18. febrúar á 40. ára afmælisdag elsku systur minnar og lending á Íslandi 19. febrúar um kaffileytið.

En þangað til næst
Au revoir

miðvikudagur, 12. febrúar 2014

Hádegismatur

Mamma mín á afmæli í dag 12. Febrúar. Til hamingju með afmælið mamma mín :-)

Það er víst þannig að hægt er að verða kvefaður annarsstaðar en á Íslandi..atsjúú;-) svolítið skrítið að vera kvefuð í 38° hita ...

Við borðuðum hádegismat í skólanum í dag. Hrísgrjón og baunir. Hinrik Jarl borðaði vel og mikið enda í skólabúningnum sem hann fèkk afhentan í gær. Hann er svo mikið ánægður með hann :-)

Við sáum mjög fallegan stað í dag sem er nokkurskonar sandnáma. Ótrúlega flottur staður.

Aron er að leggja lokahönd á heimildamyndirnar tvær sem hann hefur verið að vinna að hér. Það verður gaman að sjá lokaútkomuna.

En rafstöðin er eitthvað biluð þannig að bloggið verður stutt þar sem lítil hleðsla er á símanum.

mánudagur, 10. febrúar 2014

Hænurnar og skógurinn....

Í gær var samkomudagur. Ég fékk tækifæri til að predika á enskumælandi samkomunni hans Pastor Mosé. Það er "öðruvísi" að predika í allt annari menningu en maður er vanur en það var áhugavert og skemmtilegt verkefni. Predikunartörnin hjá Aroni er búin í bili þangað til næsta sunnudag. Þá predikar hann í kirkjunni hans Michel sem er forseti Assemblies of God hreyfingarinnar hér í Burkina Faso. Sú kirkja er í höfuðborginni Ouagadougou. En þangað er ferðinni heitið á föstudaginn.   Aron og Hinrik Jarl sváfu svo upp á svölum í nótt. Ósköp kósý.

Í dag fengum við mæðgur það tækifæri að fara með Gullý, Hinrik, húsverðinum Moussa og forstöðumanninum Daniel í kirkjunni hér á svæðinu að heimsækja 5 fjölskyldur sem eiga og hafa mjög lítið á milli handanna. Ástæðan var sú að fara átti með hænur og hrísgrjón til að gefa þeim. Aron var heima með drengina á meðan þar sem við komumst ekki öll í bílinn ;-)

Þetta fólk býr við misjafnar aðstæður. Einn eldri maður sem við fórum til átti konu og 3 börn og bjó í litlum kofa sem hefur verið svona 15 fm. Minna en svefnherbergið okkar heima. Ótrúlegt!

Seinnipartinn í dag fórum við svo í skógarferð. Það var mjög fallegur skógur með RISAtrjám ....ótrúlega fallegt og gróið svæði með miklu fuglalífi.

Það er gaman að segja frá því að Hinrik Jarl er orðin mjög heimavanur hér. Fyrst um sinn var hann mjög feimin og eiginlega hræddur við alla krakkana sem vildu koma við hann og leika við hann. En núna bíður hann eftir að hitta strákana. Í dag var hann svo allt í einu komin út á skólalóð í frímínútum að leika við strákana og fannst ekkert sjálfsagðara.

Auðvitað endaði dagurinn svo á bað(bala) ferð hjá drengjunum. Kósý kósý....

laugardagur, 8. febrúar 2014

Bæjarferð

Í gær fórum við Aron í langan göngutúr um hverfið á meðan amma Gullý passaði börnin. Það er svo dýrmætt fyrir börnin að fá að eiga þennan tíma með ömmu og afa í Afríku og fá að kynnast þeim vel. Pétur Berg  var bara 8,5 mánaða þegar þau fóru til Burkina í ágúst síðastliðnum svo hann hefur þroskast mikið og breyst á þeim tíma.

Það eru mörg hús að rísa og mörg þeirra nokkuð stór og snyrtileg. Fólkið er allt jafn vinalegt og börnin kalla á eftir manni "tútabú" eða "le blanc" hvítingi .... haha. Ég hef stundum kallað á móti með bros á vör "le noir" eða svartur og þá hlæja þau. Við gengum að vatnsdælunni í hverfinu en þar er alltaf hópur fólks með tunnu á einhverskonar hjólum að bíða eftir vatni. Við gengum líka fram á þá minnstu skólabyggingu sem við höfum séð. Um það bil 30 fm hús með 2 skólastofum. Inn í hvorri stofu voru svona 30 börn. Stúlkurnar með aftast og drengirnir fremst. Kennsla var í gangi og börnin þuldu upp einhvern texta á arabísku. Þetta var Íslamskur skóli og mjög merkilegt að sjá.

Í gær skutluðu tengdó okkur fjölskyldunni niður í bæ. Við gengum aðeins um göturnar í miðbænum. Fórum aðeins á Grand marche (markaðinn) og skoðuðum. Það kom kona til mín á markaðnum og spurði hvort hún mætti eiga strákana. Ég svaraðu skýrt "non" .... þá hló hún. Auðvitað var þetta allt í gríni hjá henni en þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég fæ þessa spurningu.

Við ákváðum að taka leigubíl heim. Það var áhugavert í alla staði. Leigubílinn hékk örugglega saman á lími. Það var ekki hægt að opna gluggana. Vantaði speglana og framrúðan var að hluta til brotin. Greyið leigubílstjórinn var með stórt kýli á hálsinum. Þegar leið á ferðina fór bíllinn að hiksta og bílstjórinn stoppaði þar sem hann þurfti að skipta um tank. Bíllinn gekk  nefnilega fyrir Etanóli. Eftir smá stopp héldum við leið okkar áfram og Aron vísaði bílstjóranum leiðina. Þegar á leið var komið myrkur og bíllinn með pínu ljóstýru svo varla sást nokkuð. Aroni leist ekkert á blikuna svo þegar við vorum komin í göngufæri frá skólanum ákváðum við að ganga síðasta spölin í myrkrinu. Sem betur fer erum við með vasaljós í símanum okkar og gátum lýst leiðina ásamt tunglinu og stjörnunum sem ljómuðu og við náðum heim á endanum.

Ævintýralegur dagur :-)

fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Bílinn og útisamkoman

Síðan á sunnudaginn er bílinn á bænum búin að vera í viðgerð. Það þýddi að við komumst ekkert í bæinn til að versla og þess háttar. Hús tengdaforeldra minna og ABC skólinn er í nýju hverfi hér í Bobo. Sem þýðir að það er lítið um verslanir nálægt okkur. Hinrik tengdapabbi reddaði því kvöldmatnum í gær með því að fara á mótorhjólinu niður í bæ og versla ávexti, jógúrt og brauð. 

Þegar Aron kom hingað síðast árið 2011 var ekkert búið að byggja hér á lóðinni og ekkert hér í kring. Nú eru hinsvegar hús risin allt í kring en ekki margir fluttir inn þar sem húsin eru ekki alveg tilbúin. Það er ekki enn komið rafmagn í hverfið þó það sé ekki langt í það þannig að húsnæðið er enn án rafmagns en þau notast við rafstöð sem er kveikt á í nokkra tíma á dag til að fá smá kælingu í ísskápinn og til að hlaða rafmagnstæki.

En nú er bílinn komin í lag. Í kvöld fórum við á útisamkomu á vegum Pastor Mosé. Aron predikaði í hléi á kvikmynd sem var sýnd. Mjög áhugavert að upplifa og sjá. Drengirnir steinsofnuðu enda vanir að sofna á milli 19 og 19:30 hér í hitanum. Samkoman var ekki fjölmenn til að byrja með en fljótlega eftir að myndin byrjaði fór fólk að streyma að. Troðfullt af fólki sem horfði og hlustaði með mikill athygli.

En annars er skemmtilegt frá því að segja að nú er komin lítil kisa á heimilið. Tengdamamma hafði beðið Guð á sunnudaginn á heimleið frá Banfora um að gefa þeim kött og viti menn....á mánudagsmorgun kemur Draman sem er formaður foreldrafélagsins með lítin svartan kettling í poka :-). Við komumst fljótlega að því að kettlingurinn var "hún" og eftir smá umhugsun komumst við að þeirri niðurstöðu að láta hana heita "Afríka".

.