miðvikudagur, 10. janúar 2018

Erum við rugluð?

Í gegnum tíðina hefur mörgum fundist við Aron vera rugluð að ferðast svona mikið og ekki bara það að við skulum ferðast heldur líka það að við ferðumst yfirleitt með börnin okkar með. Börnin okkar elska að ferðast og eiga dýrmætar minningar af fjölskylduferðalögum. Það að ferðast er eitt það skemmtilegasta sem við gerum. Þegar við ferðumst þá leitum við að ódýrum flugmiðum. Kaupum flugmiðana einna helst þegar það eru tilboð (WOW er dásamlegt þegar kemur að tilboðum). Við finnum gistinguna sjálf og kaupum ekki pakkaferðir. Við leggjum til hliðar pening (oftast mánaðarlega) til að eiga fyrir ferðalögum því við viljum ekki taka lán fyrir þeim. Þegar við erum komin á þá staði sem við höfum ferðast á þá borðum við sjaldan á veitingahúsum og erum yfirleitt með nesti yfir daginn og eldum svo þar sem við gistum á kvöldin. Ef við förum á veitingahús er það undantekning en auðvitað fer það eftir löndum. Sumsstaðar er mjög ódýrt að borða á veitingahúsum. Ég gleymi því t.d ekki hvað það var ódýrt að borða á veitingahúsi í Indlandi. 200 krónur á mann minnir mig að það hafi verið.

Núna er farin að koma Afríkufílingur í mann. Tvisvar í þessari viku er ég búin að elda mat sem samanstendur af steiktu grænmeti og hýðishrísgrjónum eða kínóa. Út í þetta hef ég skellt baunum og einhverskonar tómatsoði og bakað einfalt brauð með. Í Burkina Faso er fæðið einfalt. Það samanstendur af einhverjum svona mat ásamt besta mangó í heimi, bönunum og hnetusmjöri. Síðast þegar við fórum vorum við í 6 vikur og ég var ekki farin að sakna matarins hér heima. Núna verðum við í tvær vikur og ég er farin að hlakka til að borða dásamlega einfaldan mat og hitta fólkið í Burkina sem er svo glaðlegt og ánægt þrátt fyrir að eiga lítið.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli