fimmtudagur, 25. janúar 2018

Fimmtudagur

Það er ótrúlega misjafnt hvernig fólk bregst við hita og svita. Ég hef dáðst að Pétri Berg næstyngsta syni okkar (5 ára) sem er að koma í annað sinn á ævinni til Burkina Faso. Hann elskar hitann. Hann elskar að fara í sólbað og nýtur þess svo sannarlega að leika við bræður sína og vini sína þau Víking og Heklu hér í afríkuhitanum. Hann var líka svona þegar hann kom hingað í fyrsta sinn þegar hann var 14 mánaða gamall. Hann gekk um allt á bleyjunni og naut þess að vera í hitanum. Hann er örugglega með sömu genasamsetningu og pabbi sinn og gæti auðveldlega búið í svona heitu landi og verið á stuttbuxum alla daga.

Í morgun tókum við eina góða æfingu á veröndinni. Það var mjög fallegt að sjá sólina koma upp og finna "kalda" loftið. Ég held að það hafi verið um 18 gráður þegar við fórum út rúmlega 6. Strákarnir vöknuðu allir þegar við vorum að fara á fætur þannig að þeir fengu að sitja inni í sófa og horfa á teiknmynd sem ég var með á tölvunni á meðan við tókum æfinguna. Eftir morgunmat fór hópurinn út á skólasvæði að finna til fatnað, skó og fleira fyrir aðra fataúthlutun af þremur á meðan við erum hér á svæðinu. Það er svo merkilegt að sjá hvaða fatnað fólkið vill helst. Teppi og ullarfatnaður fyrir börn sem hefur komið í gámunum frá Englandi er vinsælast. Þetta er eitthvað sem mér hefði aldrei dottið í hug að senda í svona heitt land áður en ég kom hingað í fyrsta sinn. Einn starfsmaður hér mætti í "mokkajakka" í morgun sem var ákaflega fyndið þar sem við vorum flest öll létt klædd og fannst veðrið ákaflega notalegt. Hér er nú samt vetur og fólk gengur stundum um í úlpum og með húfur. Ég meina hitinn er sirka 32 gráður um miðjan daginn. :)

Afríkuskólinn sem við erum með fyrir litlu íslensku börnin er að slá í gegn. Í dag lærðu þau hvar Afríka er á heimskortinu og lærðu stafina í orðinu A F R Í K A. Þeim finnst þetta ákaflega skemmtilegt. Hinriki Jarli finnst þetta heldur auðvelt þannig að við þyngjum verkefni vel fyrir hann og þegar hann er búin fær hann að vinna í námsefninu sem kennarinn hans sendi hann með.  Síðan hann kom er hann búin að klára eina Risasyrpu og er byrjaður á annarri. Það er svo skemmtilegt að fylgjast með honum á kvöldin þegar við erum að fara að sofa þar sem hann situr í rúminu sínu með moskítónetinu með lítið lesljós því hann er svo spenntur yfir því sem hann er að lesa. Það gleður mömmu og kennarahjartað.

Hópurinn vann ýmis verkefni í dag. Einar Aron fór og sýndi töfrabrögð í skólanum. Stelpurnar fóru og dreifðu tannburustum og tannkremur sem hafði verið gefið frá Íslandi. Síðan voru málaðar línur á handboltavöllinn, fataúthlutun morgundagsins undirbúin og svæðið mælt.

Ég fékk að nota sólarofninn í annað skiptið í dag og bakaði eina af mínum uppáhalds. Súkkulaði, döðluköku. Það tókst ákaflega vel. Það er eitthvað svo dásamlega krúttlegt að baka í sólarofni. Eitthvað einfalt og dásamlegt.

Nú er hópurinn komin saman á kvöldstund. Við hittumst í stofunni eftir að litlu börnin eru sofnuð og deilum "lífssögu" okkar með hvort öðru. Það er ákaflega skemmtilegt verkefni sem gerir það að verkum að við lærum að þekkja hvort annað betur.

Au revoir í bili!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli