mánudagur, 22. janúar 2018

Komin til Burkina Faso



Jæja þá erum við komin til Bobo í Burkina Faso. Við flugum áleiðis með WOW air til Parísar á föstudagsmorguninn. Við þurftum að bíða í nokkra klukkutíma á Charles de Gaulle flugvellinum áður en við héldum áleiðis með Air France. Það var frábært að vera með svona mörg börn í hópnum þar sem okkur var hleypt framfyrir í röðum sem gerði ferðina mun þægilegri. Flugið var frábært báða leggi.

Að lenda á flugvelli í Burkina Faso er sérstök upplifun. Flugvöllurinn er líklega ekki mikið stærri en flugvöllurinn á Akureyri og Air France vélin því mjög stór á þessum litla flugvelli. Vinur okkar hann Salomon tók á móti okkur ásamt bílstjóra og bíl sem hann hafði reddað okkur til að leigja. Við gistum fyrstu nóttina á Kaþólsku gistiheimili sem var nokkuð gott miðað við Burkina Faso en miðað við íslenskan standard myndi það ekki skora mjög hátt. Það var mikill kostur að hafa viftu í herberginu þrátt fyrir að veðrið hafi verið kaldara en maður átti von á (23°).

Á laugardagsmorgun lögðum við af stað á lítilli 15 manna Toyotu áleiðis til Ouagadougu. Með þrem pissistoppum tók ferðin rúma 7 tíma. Hún gekk ótrúlega vel þrátt fyrir hita, ryk og smá bílveiki. Okkur leið eins og sardínum í dós en vorum þakklát fyrir að bíllinn var með bílbelti.

Fyrstu dagarnir hér hafa verið frábærir. Gullý og Hinrik tóku vel á móti okkur og það er frábært að vera hér. Fyrsti dagurinn okkar var sunnudagur. Við fórum snemma í kirkju. Öll skilningarvit voru virk. Mikið dansað. Fallegt fólk í litríkum og fallegum fötum. Lyktin var blönduð af hita og svita og söng í tónhæð sem við eigum erfitt að fylgja. Aron predikaði og samkoman gekk vel.

Í dag erum við búin að fá útsýniferð um skólalóðina. Svæðið er magnað. Grunnskóli, framhaldsskóli, matsalur, verkmenntaskóli, blakvöllur, körfuboltavöllur, fótboltavöllur og fleira. Næstu daga fær hópurinn að taka þátt í ýmsum verkefnum sem verður jákvætt og skemmtilegt.

Börnin hafa staðið sig afar vel og elska að komast út á stuttbuxum en finnst líka mjög gott að komast inn og kæla sig smávegis. Hér er drukkið mikið af vökva og mikið notað af handspritti til að þrífa hendur. Mangóið er dásamlegt og fáum við okkur dásamleg Burkina mangó á hverjum degi.

Ég næ vonandi að skrifa meira ef netið leyfir á morgun. Einfaldleikinn og gleðin í fólkinu hér snertir við hjarta manns og við er þakklát fyrir að vera hér.


1 ummæli:

  1. Takk fyrir að skrifa Gunna. Mínar bestu kveðjur og ósk um að Guð blessun fylgi ykkur alla daga.

    SvaraEyða