miðvikudagur, 24. janúar 2018

Miðvikudagur

Það er eitthvað svo dásamlegt við það að að komast út úr hversdagsleikanum, kuldanum og kalda íslenska vindinum. Við íslendingar getum þó þakkað svo margt. Hér býr fólk við einfaldleika, lélegan húsakost og lítið úrval af mat ef það fær mat. Á Íslandi fáum við oft of mikið af mat og erum með heit og notaleg hús og höfum það í raun mjög gott. Það er líka mjög gott að upplifa hvað áreitið er mun minna hér og þá er ég sérstaklega að tala um "netáreiti". Það er ákveðið frelsi i því að komast ekki á netið eftir pöntun.

Í morgun var úthlutun á ABC skólanum. Það þýðir að foreldar barnanna á skólanum sem eru rúmlega 600 talsins fengu að koma og velja sér fatnað, leikföng, skó og eldhúsáhöld. Við vorum komin á skólasvæðið rétt rúmlega 7 og hópurinn hjálpaðist að við að undirbúa og taka fatnað og skó úr gámum sem komu frá Englandi.

Eftir það undirbjó hluti hópsins fataúthlutun sem verður á morgun og við "mömmurnar" í hópnum fórum og undirbjuggum kaffitíma. Við skelltum í snúða sem voru svo settir í sólarofninn.  Merkilegt hvað sólinn getur gert hér í Afríku. Við erum svo með Afríkuskóla fyrir minni börnin í hópnum (talsins) þar sem þau vinna ákveðin verkefni á dag og eru hvert og eitt með sína vinnubók. Það er mjög skemmtilegt og góður undirbúningur fyrir þau sem eru að byrja í skóla í haust.

Börnin okkar hafa upplifað allskonar tilfinningasveiflur í þessari ferð. Þau verða samt einna helst pirruð ef þau er svöng og þreytt. Það er að komast ákveðin rútína í gang sem er mjög gott fyrir þau.  Hér er vaknað snemma og farið snemma að sofa. Það er best að baða þau úti um kl. 17 áður en það verður myrkur. Hér er vatnið kalt í sturtunum og því betra að þvo þau úti á meðan sólin skín. Við höfum farið út með stóra bala og skolað þau með slöngunni og leyft þeim svo að setja í balann. Það er ótrúlegt hvað við öll verðum skítug hér. Sandur út um allt :)

Nú er "siesta" sem þýðir að það er pása og hvíldartími. Það er svo heitt úti á þessum tíma að það er gott að fá smá pásu. Sumir fara í sólbað, aðrir leggja sig áður en haldið verður áfram með verkefni dagsins.

Ég ætla að búa til myndalbúm inn á facebook og svo getið þið fylgst með á Instagram. Ég set oftar inn  myndir þar þegar ég kemst á internet. Instragram - ið mitt er gunnastella.

Au revoir.

1 ummæli: