föstudagur, 14. febrúar 2014

Langferð

Jæja þá erum við komin til höfuðborgarinnar Ouagadougou. Löng og ströng ferð. Lögðum af stað klukkan 11 og nú er klukkan 17:30. Allir orðnir þreyttir í rassinum ... en börnin ótrúlega dugleg en þreytt. Við erum ekki komin á leiðarenda því við eigum eftir að keyra heim til Salomons sem á heima 25 km fyrir utan Ouaga. Það er ekki víst að það sé netsamband þar svo ég ákvað að blogga á meðan við erum enn í "menningunni".

Á leiðinni sáum við marga bilaða vörubíla og tvo sem höfðu farið út af og annar þeirra hafði brunnið. Það eru oft frekar lélegir þessir flutningabílar hér og mjög oft ofhlaðnir og jafnvel skakkir. Það eru nú samt sem áður mjög nýlegir og dýrir bílar hér svo það virðist vera að sumir eigi meiri peninga en aðrir.

Það var mjög skrítið að kveðja Bobo í morgun og erum öll sammála því að okkur langar mikið að koma hingað aftur. Vonum virkilega að Guð opni það tækifæri einn góðan veðurdag. Hinrik Jarl kvaddi vin sinn Jipril í morgun og gaf honum smá gjöf. Ég hefði helst viljað taka hann með mér heim. Hann er svo mikið yndislegur drengur og brosmildur þrátt fyrir mjög erfiðar heimilisaðstæður.

Já ég held það hafi haft meiri áhrif á okkur að vera hér en við gerum okkur grein fyrir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli