fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Bílinn og útisamkoman

Síðan á sunnudaginn er bílinn á bænum búin að vera í viðgerð. Það þýddi að við komumst ekkert í bæinn til að versla og þess háttar. Hús tengdaforeldra minna og ABC skólinn er í nýju hverfi hér í Bobo. Sem þýðir að það er lítið um verslanir nálægt okkur. Hinrik tengdapabbi reddaði því kvöldmatnum í gær með því að fara á mótorhjólinu niður í bæ og versla ávexti, jógúrt og brauð. 

Þegar Aron kom hingað síðast árið 2011 var ekkert búið að byggja hér á lóðinni og ekkert hér í kring. Nú eru hinsvegar hús risin allt í kring en ekki margir fluttir inn þar sem húsin eru ekki alveg tilbúin. Það er ekki enn komið rafmagn í hverfið þó það sé ekki langt í það þannig að húsnæðið er enn án rafmagns en þau notast við rafstöð sem er kveikt á í nokkra tíma á dag til að fá smá kælingu í ísskápinn og til að hlaða rafmagnstæki.

En nú er bílinn komin í lag. Í kvöld fórum við á útisamkomu á vegum Pastor Mosé. Aron predikaði í hléi á kvikmynd sem var sýnd. Mjög áhugavert að upplifa og sjá. Drengirnir steinsofnuðu enda vanir að sofna á milli 19 og 19:30 hér í hitanum. Samkoman var ekki fjölmenn til að byrja með en fljótlega eftir að myndin byrjaði fór fólk að streyma að. Troðfullt af fólki sem horfði og hlustaði með mikill athygli.

En annars er skemmtilegt frá því að segja að nú er komin lítil kisa á heimilið. Tengdamamma hafði beðið Guð á sunnudaginn á heimleið frá Banfora um að gefa þeim kött og viti menn....á mánudagsmorgun kemur Draman sem er formaður foreldrafélagsins með lítin svartan kettling í poka :-). Við komumst fljótlega að því að kettlingurinn var "hún" og eftir smá umhugsun komumst við að þeirri niðurstöðu að láta hana heita "Afríka".

.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli