laugardagur, 8. febrúar 2014

Bæjarferð

Í gær fórum við Aron í langan göngutúr um hverfið á meðan amma Gullý passaði börnin. Það er svo dýrmætt fyrir börnin að fá að eiga þennan tíma með ömmu og afa í Afríku og fá að kynnast þeim vel. Pétur Berg  var bara 8,5 mánaða þegar þau fóru til Burkina í ágúst síðastliðnum svo hann hefur þroskast mikið og breyst á þeim tíma.

Það eru mörg hús að rísa og mörg þeirra nokkuð stór og snyrtileg. Fólkið er allt jafn vinalegt og börnin kalla á eftir manni "tútabú" eða "le blanc" hvítingi .... haha. Ég hef stundum kallað á móti með bros á vör "le noir" eða svartur og þá hlæja þau. Við gengum að vatnsdælunni í hverfinu en þar er alltaf hópur fólks með tunnu á einhverskonar hjólum að bíða eftir vatni. Við gengum líka fram á þá minnstu skólabyggingu sem við höfum séð. Um það bil 30 fm hús með 2 skólastofum. Inn í hvorri stofu voru svona 30 börn. Stúlkurnar með aftast og drengirnir fremst. Kennsla var í gangi og börnin þuldu upp einhvern texta á arabísku. Þetta var Íslamskur skóli og mjög merkilegt að sjá.

Í gær skutluðu tengdó okkur fjölskyldunni niður í bæ. Við gengum aðeins um göturnar í miðbænum. Fórum aðeins á Grand marche (markaðinn) og skoðuðum. Það kom kona til mín á markaðnum og spurði hvort hún mætti eiga strákana. Ég svaraðu skýrt "non" .... þá hló hún. Auðvitað var þetta allt í gríni hjá henni en þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég fæ þessa spurningu.

Við ákváðum að taka leigubíl heim. Það var áhugavert í alla staði. Leigubílinn hékk örugglega saman á lími. Það var ekki hægt að opna gluggana. Vantaði speglana og framrúðan var að hluta til brotin. Greyið leigubílstjórinn var með stórt kýli á hálsinum. Þegar leið á ferðina fór bíllinn að hiksta og bílstjórinn stoppaði þar sem hann þurfti að skipta um tank. Bíllinn gekk  nefnilega fyrir Etanóli. Eftir smá stopp héldum við leið okkar áfram og Aron vísaði bílstjóranum leiðina. Þegar á leið var komið myrkur og bíllinn með pínu ljóstýru svo varla sást nokkuð. Aroni leist ekkert á blikuna svo þegar við vorum komin í göngufæri frá skólanum ákváðum við að ganga síðasta spölin í myrkrinu. Sem betur fer erum við með vasaljós í símanum okkar og gátum lýst leiðina ásamt tunglinu og stjörnunum sem ljómuðu og við náðum heim á endanum.

Ævintýralegur dagur :-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli