laugardagur, 15. febrúar 2014

Rassadillingar og fjör

Við komum heim til Salomons um klukkan 18 í gær. Það var gaman að hitta hann og fjölskylduna hans. Hann á 4 börn þar af einn dreng sem heitir Daniel og er jafn gamall og Hinrik Jarl. Þegar við sátum úti á verönd hjá Salomon fylltist veröndin af börnum á öllum aldri. Þeim þótti Hinrik Jarl og Pétur Berg mjög áhugaverðir. Hinrik Jarl fór strax í leik við syni hans Salomons, hann  Daniel og hann Jonatan. Leikurinn snérist um það að kasta einum skónum hans Hinriks Jarls á milli sín. Það þarf ekki flókin leikföng.

Við gistum í húsi sem kristniboðar bjuggu eitt sinn í. Það er orðið frekar lúið og ekki verið búið hér í einhvern tíma og því mikil viðbrigði að koma hingað eftir að vera hjá tengdó þar sem hér eru rakaskemmdirs ofl.  Við vorum líka mjög þreytt og lúinn eftir 7. Tíma akstur í gær svo allt varð bjartara og betra þegar við vöknuðum í morgun. Svæðið hér er mjög fallegt og það var yndislegt að sitja úti á verönd í morgun og borða morgunmat.

Salomon er kennari hér á Cubri. Þetta er stór Biblíuskólalóð og um 100 nemendur hér. Margir þeirra eiga stórar fjölskyldur svo hér er mjög fjölmennt. Núna er í gangi kristilegt mót. Við fórum á útisamkomu í kvöld sem var algjörlega frábær. Tónlistin var fjörug og skemmtileg og alls ekki á blastinu eins og oft vill vera hér í Afríkunni.

Það var svo skemmtilegt að fylgjast með fólkinu og sjá svo konuhóp koma í beinni röð fyrir framan sviðið með ekta flottar rassadillingar og svo dönsuðu þær Guði lof eins og Davíð konungur gerði. Aron stóð sig vel í predikarahlutverkinu og svo tókum við íslendingarnir lagið. Sungum lagið sem gæti verið titillag þesarar ferðar. "Takk, takk Jesú". Ástæðan er sú að Hinrik Jarl var alltaf að syngja þetta lag í upphafi ferðar. Hann tekur oft ástfóstri við einhver lög og í janúar var það þetta lag. Pétur Berg sem er á fullu að bæta við sig nýjum orðum greip lagið fljótt og byrjaði að syngja "da, da" eða takk takk ... alveg í réttum takti. Hann byrjar reglulega á þessu lagi og allir taka undir. Nú hefir lagið þróast hjá honum og syngur hann "da, da dududd" eða "takk, takk Jesús". Hann svaf reyndar samkomuna áðan af sér svo hann söng ekki fyrir allt fólkið áðan:-).

Jæja...ræs í fyrramálið kl 5 þar sem við erum að fara á samkomu hjá forsetanum (forseta Assemblies of God hér í Burkina) klukkan 7 og það tekur um klst að komast þangað....og hver á að predika? :-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli