mánudagur, 17. febrúar 2014

Býflugur og fleira

Jæja þá er síðasta nóttin í Burkina Faso að "renna" í hlað. Ótrúlegt hvað tíminn hefur liðið hratt.

Í morgun fórum við að skoða ævintýratré sem er hér rétt hjá húsinu sem við gistum í. Eini "gallinn" ef galla má kalla var sá að í trénu var býflugnabú í svona sirka 10 metra hæð. Þannig að það að ganga að trénu var ekki mikið fagnaðarefni hjá öllum fjölskyldumeðlimum. En á endanum skoðuðu allir tréð. Það er nefnilega best að stíga á móti óttanum og sigra hann. Það hef ég allavega lært í gegnum tíðina.

Við kíktum svo á nemendurna í Biblíuskólanum. Aron og Hinrik voru lengur en við hin og fengu margar margar spurningar sem þeir reyndu að svara af bestu getu. Eftir hádegi fórum við Aron og krakkarnir í gönguferð um svæðið þar sem nemendurnir hér á skólanum búa. Þeir búa ásamt fjölskyldum sínum í einu herbergi og eru með eldhús úti. Það sem er svo skemmtilegt við þetta svæði er að það eru margar fjölskyldur og mikið mannlíf á svæðinu og mjög mikið af börnum. Það er því mikill samgangur eins og algengt er hér á landi.

Eftir því sem við gengum lengra því stærri varð barnahópurinn sem elti okkur og umkringdi á alla vegu. Frekar krúttlegt.

Krakkarnir léku svolítið við börnin hans Salomons í dag. Það var gaman að leyfa þeim að kynnast svolítið.

Seinnipartinn fórum við svo að skoða kirkju og grunnskóla sem Salomon rekur. Fátæktin er mikil þar í kring og fólkið býr í litlum kofum. Þegar við komum heim heyrðum við hrópað könguló könguló. Lýdía hljóp inn í herbergi og Hinrik Jarl sagði ég var rosa hræddur. Köngulóinn hvarf og allir héldu að þetta hefði verið einhver "smá" könguló þangað til....
Ég sá hana á yfirbyggðu veröndinni. Já ... þetta var sú stærsta sem ég hef séð og líka sú stærsta sem tengdamamma hefur séð á þeim árum sem þau hafa verið hér. Jakkkk....

Aron fékk heiðurinn af því að drepa skepnuna með skó pabba síns. En fyrst smellti hann af einni mynd ;-)

.... vona bara að okkur dreymi ekki köngulær -rælugnök í nótt. Veit ekki hvort ég ætti að setja mynd hér á bloggið.

Nei!!!!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli