þriðjudagur, 14. janúar 2014

Afríkusólin og fleira.

Við Lýdía Líf tókum daginn snemma og vorum komin upp á þak fyrir klukkan 06:00. Tilgangurinn var sá að fylgjast með sólarlupprásinni.  Það var svalt í morgunsárið, aðeins um 21 gráða sem er talsvert kaldara en talan segir til um. Fljótlega fór að birta til en sólin sást ekki enda var hún hulin mistri á leið sinni  upp á himinhvolfið.  Í morgun var enginn vindur til þess að blása mistrinu í burtu en það er tilkomið vegna þess að flestir hér kveikja daglega eld fyrir utan hús sín til að elda mat, brenna rusl auk þess sem bíla og mótorhjólaflottinn er langt frá því að vera búin nýjasta mengunarvarnarbúnaði. Það náðist því enginn góð mynd af sólarupprás í morgun en ég læt í staðinn fylgja mynd af sólarlaginu sem var tekin nú í kvöld, sólin er stór og falleg hér í Afríku. 

Í dag var enginn skóli hjá ABC og reyndar var flest lokað hér í Bobo. Ástæðan er inn af hátíðsdögunum í Islam. Þeir er talsvert margir en einnig er haldið upp á kristna hátíðardaga.  Það vantar því ekki frídagana hér í landi.  Í dag voru  mótorhjólin tvö sem eru á heimilinu prufuð. Þetta eru bæði innflutt hjólf frá Asíu, Kóreu held ég. Annað hjólið er 3 dekkja með sturtuvagni. Aksturseignileikarnir eru ekki upp á marga fiska en það skilar sínu. Hitt hjólið er nokkuð skemmtilegt götuhjól. Ég tók hringi um hverfið, með og án frúarinnar á hnakknum. Ég hef aldrei neinn rosalegur mótorhjólamaður en það var mjög indælt að upplifa svalann sem kemur af því að þjóta um á hjóli í annars steikjandi hita.  Þetta er klárlega rétti ferðamátinn hér.

Seinnipartinn var farin rúntur að landareign sem foreldrar mínir eiga og lána foreldrafélaginu til þess að rækta maís, hnetur og baunir sem eru notaðar í skólamötuneytinu. Þetta hjálpar verulega til þess að ná endum saman í skólahaldinu enda vantar nokkuð upp á að það séu styrktaraðilar fyrir alla nemendur skólans. Landið er 5 hektarar og stendur nokkuð fyrir utan bæjarmörkin. Byggðin stækkar hinsvegar ört og líklega eru aðeins nokkur ár í að landið verði tekið undir “skipulagða” byggð.  

Á landinu býr umsjónarmaður/vörður ásamt fjölskyldu sinni í litlum kofa. Þetta er allt ósköp frumstætt, hvorki rafmagn né rennandi vatn. Þannig búa reyndar flestir í þessu landi þ.e. þeir sem ekki búa í stærstu borgum og bæjum. Fólk treystir á regntímann til þess að ná að rækta nóg til að lifa á yfir árið. Stundum gerist það að það rignir lítið eða ekkert og þá skapast hrikalegt neyðarástand. Staðan í ár er nokkuð góð og fólk virðist ánægt á meðan það hefur í sig og á.

Á morgun ætlum við pabbi að heimsækja frumstætt og afskekkt þorp og hitta fólk sem hann hefur verið að styðja við.  Konurnar og börnin verða heima á meðan enda er ekki mjög áhugavert  fyrir ungviðið að keyra langar vegalengdir til þess að eins að sitja að löngu spjalli á tungumáli sem þau skilja ekki.

Þar til síðar, Aron...




Engin ummæli:

Skrifa ummæli