sunnudagur, 12. janúar 2014

Lífið í Afríku

Jæja nú er komin tími á nýtt blogg. Lífið hér í Bobo er dásamlegt. Veðrið er yndislegt og það væsir ekki um okkur. Krakkarnir eru mjög ánægðir þó þeim finnist stundum svolítið heitt. Þó sérstaklega á næturnar. Við erum þó að finna okkar takt í þessu og finnum að það er best að sofa með opin glugga. Það eru net fyrir gluggunum og svo sofum við undir neti. Við höfum þó ekki orðið vör við eina moskítóflugu síðan við komum hingað til Bobo en allur er varinn góður.

Aðstaðan sem tengdaforeldrar mínir eru búnir að byggja upp hér ásamt öðru góðu fólki er frábær. Skólahúsnæðið er til fyrirmyndar. Búið að setja upp litla heilsugæslustöð, handavinnustofu, matsal, stóran vatnsturn, búið að steypa körfuboltavöll og fleira og fleira. Það er magnað að fá að sjá þetta með eigin augum.

Í morgun fórum við á samkomu sem fór fram á doula og frönsku. Reyndar á ensku líka því Aron minn predikaði þessa líka fínu ræðu:-) Fólkið hér er mjög vinalegt og vilja allir heilsa með handabandi. Þetta fólk sem á og hefur frekar lítið eða jafnvel ekki neitt á milli handanna segir Bonjour, Ca va með kærleiksríkt bros á vör.

Skólalóðin er innan múra sem voru hlaðnir  og múraðir. Þar rétt fyrir utan er svínabú sem við gengum að í gær. Við það er lítill kofi sem fjölskylda  ein á (þar af fimm börn). Þau búa greinilega við mikla fátækt en öll voru þau með stórt bros á vör. Minnsta barnið sem var kannski nokkura mánaða var í fangi pabba síns (berrassað) og annað barn sem var aðeins stærra sýndi hundinum á heimilinu vald sitt og sparkaði og barði í hann og snéri hausnum á honum. Ég verð að viðurkenna að ég vorkenndi greyið hundinum. Það er ekki mikil virðing borin fyrir dýrum hér. Maður sér það á vegunum þegar verið er að flytja geitur sem eru bundnar upp á þak bíla og rútna og þar liggja þær í steikjandi hita þangað til þær eru komnar á leiðarenda.

Í dag fórum við síðan í enskumælandi kirkju þar sem Hinrik tengdapabbi predikaði og hann og Aron voru með smá tölu í tilefni þess að þetta var fyrsta samkoman í kirkjunni. Þetta var ágætis samkomumaraþon - 3. tíma samkoma og troðfullt. Ég var úti með krakkana og hlustaði í gegnum hátalarakerfið.  Já þetta var ekta Afrísk samkoma - löng og mjöööög heitt.

Jæja nóg í bili....

Gunna

p.s
Það gengur frekar hægt fyrir sig að setja inn myndir í gegnum bloggið svo ég er búin að búa til myndasafn á facebook sem heitir Burkina Faso. Bæti svo inn í það reglulega. Ef þið viljið fylgjast með því þá heitum við Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir og Aron Hinriksson á facebook :-)


Engin ummæli:

Skrifa ummæli