sunnudagur, 5. janúar 2014

Hvar er Burkina Faso?

Síðustu daga og vikur hef ég þurft að útskýra oft og fyrir mörgum hvar Burkina Faso er í heiminum og hvernig landið er.  Oft segjumst við bara vera að fara til Afríku en það er það sama og segjast vera að fara til Asíu þegar maður fer til Indlands. Í raun eru 54 lönd í Afríku sem mörg eru mjög ólík að landslagi og menningu. Því datt mér í hug að setja niður smá upplýsingar um landi.

Burkina Faso hét Efri Volta fram til ársins 1984 og margir af eldri vinum okkar gætu kannast við það nafn. Burkina er rétt sunnan við Sahara eyðimörkina og liggur hvergi að sjó heldur er umkringt af löndunum Malí í norðri, Níger í austri, Benín í suðvestri, Tógó og Ghana í suðri og Fílabeinsströndinni í suvestri.  Landið er fremur snautt af náttúruauðlindum og byggir að mestu leyti á fremur frumstæðum landbúnaði. Um 80% vinnuaflans starfar við landbúnað. Landið er því með þeim fátækustu í heiminum. Landsframleiðsla er aðeins rúmlega 1000 dollarar á mann á ári.  Íbúar eru rúmlega 15 milljónir.

Burkina er tæplega þrefalt stærra að flatarmáli en Ísland eða 274,200 km2
 

Höfuðborg Burkina heitir Ouagadougou (borið fram "vagadúgú" og þangað fljúgum við á miðvikudaginn). Þar er meira eyðimerkur loftslag en í Bobo Dialasso þar sem við verðum. Bobo er næst stærsta borg Burkina og þar er landslagið talsvert grænna. Foreldrar mínir búa og starfa í fremur fátæku hverfi í útjaðri borgarinnar.  Þar hafa þau stofnsett skóla á vegum ABC og þar stunda nú um 350 nemendur nám sem annars ætti ekki kost á námi.

Þeir sem hafa ferðast um vestur Afríku tala um það hversu gott þeim þykir að koma til Burkina Faso í samanburði við löndin í kring. Landið er friðsælt þrátt fyrir mikla fátækt og samskipti milli ólíkra þjóðfélags og trúarhópa eru almennt mjög góð. Fólkið er vinsamlegt og tekur gestum vel. Við ættum því að eiga vona á góðu:)

Meira um það síðar, Aron


3 ummæli:

  1. Góða ferð kæru vinir, verður gaman að fylgjast með ferð ykkar í Burkina faso. Bið kærlega að heilsa.
    bestu kv. Keli

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir það Keli, við skilum góðri kveðju út, hafðu það sem best...

    SvaraEyða
  3. Góða ferð Lýdía Líf við fylgjumst með þér. Okkur þykir vænt um þig. Kveðja 5.DE/LDS :-)

    SvaraEyða