miðvikudagur, 1. janúar 2014

Air France, flugmiðar og fleira ....

Þegar við pöntuðum flugið til Burkina Faso þá völdum við dagsetningar og flug þannig að flugið yrði í senn "ódýrt", stutt og þægilegt. Við erum nefnilega að ferðast með 3 börn, tvo barnabílstóla, eina kerru og nokkrar töskur.  Upphaflega áttum við að fljúga 7. janúar til Parísar, bíða svo í 4 tíma á flugvellinum í París og fljúga svo þaðan beint til Ouagadougou í Burkina Faso með Air France.
Í nóvember fengum við hinsvegar bréf frá Air France með þeim skilaboðum að búið væri að breyta fluginu okkar. Brottför frá París væri ekki kl. 16:10 eins og við höfðum pantað heldur klukkan 11 um morguninn. Það var frekar óhentugt fyrir okkur vegna þess að þá verðum við á flugi einhversstaðar á milli Íslands og Parísar.  Þetta hafði það í för með sér að annaðhvort þyrftum við að breyta Icelandair flugmiðunum og fljúga 8. janúar frá Íslandi sem var mjööög dýrt eða gista eina nótt í París. Við völdum ódýrari kostinn "að gista í París".

Við pöntuðum hótel í gegnum síðu sem við höfum nokkrum sinnum nýtt okkur á ferðalögum. Þessi síða heitir Hotwire. Þetta er mjög sniðug síða. Þar er hægt að velja borg sem þú vilt gista í og svæði sem þú vilt vera á. Síðan velur maður verð sem maður vill borga og fær að vita nafnið á hótelinu þegar búið er að borga. Við völdum stað sem við vildum gista á og svæði (nálægt flugvellinum) og pöntuðum hótelið án þess að vita hvað það hét. Síðan kom í ljós að þetta var ljómandi fínt hótel um 3 km frá flugvellinum.

Í dag ákvaðum við svo að panta okkur bílaleigubíl þennan sólahring sem við verðum í París. Planið er nefnilega að nýta ferðina og reyna að versla einhvern fatnað á okkur á janúarútsölum Í París. Það vill svo skemmtilega til að búið er að opna nýtt mall - Aeroville - sem er rétt hjá hótelinu. Vonandi lendum við á útsölum og getum fatað mannskapinn fyrir árið. Aldrei að vita nema við tökum rúnt og kíkjum á Eiffel turninn :-)

Þó svo við séum búin að panta hótel og leigja bílaleigubíl þá erum við ekki enn komin upp í þann kostnað sem hefði orðið ef við hefðum breytt Icelandair flugmiðunum ;-)

1 ummæli:

  1. Það verður gaman að fylgjast með ykkur hér. Biðjum kærlega að heilsa Hinrik og Gullý. Eigið yndislegan tíma úti og njótið þess að vera í sólinni. Kveðja, Sigga og Guðmann

    SvaraEyða