laugardagur, 25. janúar 2014

ABC skólin í Bobo

Fyrir þremur árum kom ég hingað til Bobo og sá skólann sem byggður hafði verið upp þá. Það kom mér gríðarlega á óvart þegar ég kom hingað aftur núna hversu mikið hafði verið byggt upp. Nemendur eru um 350 og fá þau öll ókeypis menntun í boði Íslendinga.  Lögð er áhersla á að nemendur komi frá fátækustu heimilinum hér á svæðinu sem ekki hefðu efni á að senda börnin í skóla. Úr vöndu er að ráða því mikið er af fátækum heimilum hér.

Fátæktin sem um ræðir er nokkuð sem fæstir Íslendingar geta skilið án þess að sjá hana með eigin augum.  Fólk býr í litlum kofum sem byggðir eru úr múrsteinum sem búnir eru til úr jarðveginum sem var þar sem húsin standa. Þessi tegund húsa er mjög léleg vegna þess að steinarnir leystast upp á regntímanum og hrynja að lokum.  Oft búa börnin hjá fjarskyldum ættingjum, kunningjum eða jafnvel ein vegna þess að foreldrarnir hafa þurft að fara annað af ýmsum ástæðum. Þetta fólk hefur ekki aðgang að heilsugæslu og oft er máltíðin í skólanum sú eina sem börnin fá yfir daginn.

Í vor útskrifast fyrstu nemendur skólans og á teikniborðinu er framhaldsskóli til þess að nemendur geti haldið menntun sinni áfram. Það er hinsvegar allt háð fjármagni sem er af skornum skammti.  Hér er einnig komin verkmenntadeild sem er einkum hugsuð fyrir þá nemendur sem hafa átt erfitt með að fóta sig í bóklega náminu. Einnig er komin heilsugæsla á svæðinu fyrir börnin. Nemendur í skólanum eru yfir 50 í hverjum bekk en það er hátíð miðað við ríkisskólana þar sem nemendur eru oft um 200 í bekk. 

Í gær og í dag vorum við að taka myndir af nemendum sem eru að ég held hugsaðar til þess að senda stuðningsaðilum. Ég tók myndir, Gunna og Lýdía skráðu þau niður og mamma hjálpaði þeim að finna sig til. Á meðan á myndatökunni stóð fengum við að heyra af aðstæðum ýmisa nemenda og voru það oftar en ekki átakanlegar sögur. Það var gaman þegar allt í einu byrtist stúlkan sem við fjölskyldan höfum styrkt síðustu ár sem og börn sem ýmsir vinir okkar og fjölskylda styrkja. Þetta eru mjög flottir einstaklingar og ótrúleg forréttindi að fá að geta tekið þátt í að skapa þessum krökkum framtíð sem þau 
annars ættu ekki kost á. 

Í lok myndatökunnar komu nokkrir af eldri krökkunum og báðu um að tekin yrði mynd af þeim og Lýdíu Líf. Læt hana fylgja með hér að neðan ásamt nokkrum öðrum. 








Engin ummæli:

Skrifa ummæli