fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Ísland fagra Ísland

Jæja þá erum við komin heim í kuldalandið fagra og góða. Ferðin gekk ljómandi vel. Við lögðum af stað frá Ouagadougu kl 21:10 18. febrúar og vorum lent í París klukkan 5 um morguninn 19. febrúar. Við vorum sem sagt um 8 tíma í vélinni þar sem við millilentum í Niamey. Strákarnir sofnuðu fyrir flugtak og sváfu meira og minna þangað til við lentum í París. Eftir 7 tíma setu í nánast sömu stellingu með Pétur Berg í fanginu varð ég eitthvað ógurlega skrítin. Máttlaus, óglatt og eitthvað mjög furðuleg. Aron var sofandi akkúrat á þeim tímapunkti í sætinu fyrir aftan mig svo ég kallaði á flugþjóninn og bað hann um að taka Pétur Berg og rétta Aroni hann. Flugþjóninn sagði mér að leggjast á gólfið sem ég og gerði með fætur upp í loft og þá fór blóðið á hreyfingu. Hann sagði að þetta væri algengt hjá fólki á flug þar sem það vantaði blóðflæði til heilans og mjög líklegt að þetta hafi gerst af því að ég var búin að vera í sömu stellingu svo lengi. Allavega leið mér mun betur eftir að hafa legið í hálftíma á gólfinu en var eitthvað tuskuleg meira og minna allan daginn. En ég sagði við Aron ... vá hugsaðu þér ef maður gæti legið alveg flatur þegar maður er á flugi. Þvílíkur lúxus... kannski kemur að því einn daginn að maður fljúgi á svona "sleeper" class :-) hver veit? ha ha...

En við biðum svo í París í um 7 tíma. Fórum með Icelandair heim um hádegi. Hinrik Jarl sagði þegar við vorum komin í vélina og flugfreyjan talaði við okkur á íslensku. Hún talar íslensku:-) Ferðin heim gekk ljómandi vel og við lentum á landinu kalda rétt fyrir kl. 16:00 í 5. stiga hita. Þannig að hitamismunurinn var um 30 gráður. Á leiðinni heim frá flugvellinum fórum við í heimsókn til Söru og Jakobs sem eru systkini Arons. Þau voru búin að kaupa þetta líka ljómandi fína sætabrauð handa okkur...nammi namm. Síðan fórum við heim á leið í mjög miklu roki. Aroni leist ekkert á blika svo við keyrðum þrengslin í stað þess að fara yfir heiðina. Það má því segja að íslenskt veður hafi DANSAÐ af gleði yfir því að við værum komin heim.

Í dag erum við búin að hitta fjölskyldu og vini sem hefur verið yndislegt. Svo gott að koma heim og hitta fólkið sitt. Lýdía Líf fór hress og kát í skólann og Hinrik Jarl vildi ólmur drífa sig í leikskólann til að gefa deildinni sinni Afríkupúsl og hitta vinina sína. Aron fór svo að útrétta ýmislegt og byrjar svo að vinna í Vallaskóla aftur á morgun. Við Pétur Berg vorum heima og fengum frábæra gesti. Dagbjört vinkona mætti fyrst á svæðið, svo mamma og Hreinsi og síðan Helga og Tómas. Mikið, mikið gaman að hitta þau öll. Lýdía kom svo heim með þrjár vinkonur sínar og Hinrik Jarl fékk Kristveigu Láru og Gabríel í heimsókn.

Við erum svo mikið þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að fara í þessa ferð. Við eiginlega trúum því ekki að við séum búin að fara og komin heim aftur. Tíminn var svo fljótur að líða. Það er svo margt sem við höfum tekið sem sjálfsagðan hlut í lífinu almennt. Lýdía Líf kom til mín í gær voðalega kát og sagði "Mamma, það er æðislegt að geta fengið sér kalt vatn beint úr krananum". Það er mjög sjálfsagt fyrir okkur íslendinga sem höfum hreint og tært vatn og nóg af því. En það er ekki sjálfsagt í Afríku þar sem fólk þarf að fara langar leiðir til að safna að sér vatni.

Takk elsku Gullý og Hinrik fyrir að taka á móti okkur fjölskyldunni. Takk fyrir að umbera lætin í okkur, sérviskuna og allt það sem fylgir ólíkur karakterum og einstaklingum. Það var frábært að vera með ykkur og sjá allt það frábæra starf sem þið eruð að byggja upp.

Efst í huga mér er eitt orð

ÞAKKLÆTI

1 ummæli:

  1. Frábært að hitta svona ferðalangafjölskyldu - ekki allir sem gúddera miklar heimsreisur með börn, eins og mér þykir það nú dýrmæt gjöf að sýna þeim heiminn!

    Eins og ég nefndi var ég búin að lesa aðeins bloggið ykkar áður en við fórum út (lítill heimur!) og nú ætla ég að lesa allt um ferðina ykkar :) Finnst ég hálfpartinn vera að njósna, nú þegar ég er búin að hitta ykkur, svo ég kann ekki við annað en kasta á ykkur kveðju og láta vita af mér hérna.

    Gott að þið komust heilu og höldnu síðasta spölinn og njótið þess nú að hitta vini og ættingja og þreyta þau með endalausum afríkusögum :)

    Við erum strax farin að hugsa hvert og hvenær við ættum að fara næst - einhverjar hugmyndir? :) Þið hafið nú farið svo víða með lítil viðhengi :)

    Kveðja,
    Ásta, Gunnar og Jökull frá CDG/KEF

    SvaraEyða